miðvikudagur, október 05, 2005

Cuvée Juveniles fær fimm glös

"... margbrotnasta og skemmtilegasta..."

Það hafa mörg vín frá vín og mat fengið fjögur glös í Gestgjafanum og ein fimm hafa hlotið titillinn "Vín mánaðarins". Cuvée Juveniles frá Torbreck er þó það fyrsta sem hlýtur fullt hús, fimm glös.
"Víngerðin Torbreck er ekki stór á mælikvarða áströlsku risafyrirtækjanna en
vínin frá henni vekja ávallt mikla athygli og eru jafnan á meðal rómuðustu vína Eyjaálfu. Þetta vín kemur frá Barossa og er samsett úr Miðjarðarhafsþrúgunum grenache, shiraz og mataro (sem nefnist mourvédre á frönsku). Það hefur meðalþéttan, kirsuberjarauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er satt best að segja ein sú margbrotnasta og skemmtilegasta sem ég hef fundið í háa herrans tíð. Hún er ung og berjarík og minnir fyrst ákaflega mikið á vín frá Chateaunef-du-Pape en þarna blandast saman í ævintýralega ilmsinfóníu kirsuberjasulta, blóm, minta, vanilla, varalitur, möndlur (sælgætið góða), reykur, kryddjurtir og griplím. Í munni er vínið sýruríkt og vel byggt og rís hátt upp áður en það fjarar hægt og rólega út. Það er enn ungt með mjúk tannín og mikla endingu. þarna eru glefsur af þroskuðum þrúgum, kirsuberjum, sveskju, dökku berja-kompott, vanillu, apríkósusultu og tóbaki. Minnir aðeins á pinot noir frá heitu landi. Hafið það með bragðmikilli villibráð, flottri nautasteik eða lambakjöti elduðu með miklu af rósmaríni og hvítlauk. Í reynslusölu vínbúðanna [þ.e. fæst í Heiðrúnu og Kringlunni eingöngu] 2270 [kostar reyndar 2.390 krónur]. Mjög góð kaup. Hiti: 17-19°C. Geymsla: Það er gaman að setja nokkrar flöskur í kjallarann af þessu víni og smakka næstu 6-8 árin. Er þó tilbúið núna."

Ætli ég eigi nóg af þessu ?