föstudagur, september 02, 2005

Vínið með appelsínugula tappanum snýr aftur

Nú eru 27 mánuðir síðan Vín & matur byrjaði að selja vínin sín í Vínbúðunum. Það voru einungis tvö vín til að byrja með, hvítvínið Casal di Serra frá Umani Ronchi á Ítalíu og rauðvínið Gotim Bru frá Castell del Remei á Spáni. Casal di Serra fór alla leið í kjarna og fæst nú víða en Gotim Bru féll úr sölu þar sem það var rétt svo undir kröfu um lágmarkssölu reynsluvína.

Gotim Bru er vín sem Parker hefur gegnum árið alltaf gefið topp einkunn, sú hæsta var fyrir 2000 árganginn sem fékk 91 stig. Þeir sem smökkuðu það virtust flestir á sama máli og Parker. Hvers vegna náði það þá ekki lengra í kerfi ÁTVR ef það var svona gott ? Kannski út af því að það var ekki frá Rioja eða vegna þess að það kostaði ekki undir 1.100 krónum.

Jæja, vínið er komið aftur. Það eru nokkrar flöskur eftir af 2001 árganginum sem eiga eftir að klárast í september en þá tekur 2003 árgangurinn við.

Við Rakel opnuðum Gotim Bru 2001 í gær. Já, það var gott. Vínið er ennþá sama mjúka og bragðmikla Gotim Bru en hefur slípast til svo varla er bugðu á því að finna. Vínið er svolítið feitt og kjötmikið og rann því einstaklega vel og auðveldlega niður með grilluðu kjúklingavængjunum, lamb væri ekki verra. Ég myndi segja að 2001 sé að toppa núna þótt gaman væri að sjá hvert það fer næstu 3-5 árin. 2003 verður yngra og villtara.

Hvers vegna ekki að geyma flösku af 2001 og bera saman við 2003 síðar í haust ?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home