fimmtudagur, september 08, 2005

Vin Santo - heilagt sætvín frá Toscana

Fá vín gera mér eins vel kleyft að upplifa angan og anda heils héraðs eins og Vin Santo gerir fyrir Toscana.

Ýmsar skýringar eru á nafngiftinni "heilagt vín" t.d. að vínið hafi verið búið til á degi allra heilagra í byrjun október, að vínið hafi verið notað sem messuvín, að vínið sé "heilagt" vegna þess að prestur læknaði sjúka með því að láta þá drekka vínið í plágunni 1348, eða að nafnið sé tilkomið vegna tóms miskilnings þegar að réttrúnaðarklerkurinn Bessarion kallaði það "xantos" árið 1439 sem á hans máli þýddi einfaldlega "gullið". Allavegana, nafnið hefur eitthvað með kirkjuna að gera — og því hugsanlega heilagt !

Liturinn er svo sannarlega oft gullinn, oft með brúnleitum eða appelsínugulum tilbrigðum. Þrúgurnar eru a.m.k. 70% Trebbiano og Malvasia og að hámarki 30% aðrar hvítvínsþrúgur (ein útgáfan leyfir einnig rauðvínsþrúguna Sangiovese). Eftir uppskeru eru þær látnar þorna á þurrum loftum, ýmist á mottum eða hengdar upp, í u.þ.b. 2-5 mánuði þar til þær verða að hálfgerðum rúsínum. Þá eru þær pressaðar og sætur safinn settur í viðartunnur (alls konar viður, oftast eik eða kastanía) til að gerjast og þroskast í a.m.k. 3-5 ár.

Gott Vin Santo getur verið þurrt og biturt (oxiderað) eins og sérrí, dísætt og allt þar á milli. Oft er hægt að lesa út úr áfengismagni vínsins hvers lags það er, því hærri prósenta þeim mun þurrara er vínið og svo öfugt. Getur það rokkað milli u.m.b. 10-18%, allt eftir aðferðum og smekk framleiðandans. Einnig er vínið sætara því lengur sem þrúgurnar voru þurrkaðar. Vin Santo er hreint vín, þ.e.a.s áfengi er aldrei bætt út í eins og gert er með sérrí eða portvín.

Vin Santo er dýrt vín. Það er aldrei beinlínis praktískt að búa það til því magnið er svo lítið (samanskroppnar þrúgur + mikil uppgufun við þroskun í tunnum) og krefst sérstaks umstangs. Flestir framleiðendur í Toscana búa það samt til og góður framleiðandi gerir það af miklu stolti og ástríðu.

Sem sætvín er lógískt að drekka Vin Santo eftir mat. Það er hefð að dýfa cantucci möndlukexi í vínið en betri vína er best notið einna og sér. Sum sætvín er einfaldlega of góð til að geyma þar til við enda mikils málsverðar, sérstaklega ef talsvert léttvín hefur verið drukkið á undan, — þau eru nægt tilefni út af fyrir sig en ég hef prófað að drekka slík vín á undan mat og virkar það bara vel en fer samt eftir öðrum mat og víni er á eftir fylgir, sætleiki þess slævir nefnilega bragðlaukana (gott að hreinsa með einhverju t.d. vatni og brauði).

Vín & matur flytur inn tvö Vin Santo frá Toscana sem bæði fást í Heiðrúnu og Kringlunni, annað frá Fontodi og hitt frá Castello di Querceto (byrjar 1. okt).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home