sunnudagur, september 11, 2005

Tvö rauðvín frá Provence fá 19/20 í Mogganum

Steingrímur í góðu skapi:

"Það er ekki oft sem vín frá Provence sjást í ÁTVR, hvað þá toppvín. Það ber því að fagna er vín á borð við Domaine Tempier sést í hillunum. Þetta er framleiðandi á AOC-svæðinu Bandol við Miðjarðarhafsströnd Frakklands milli Marseille og Toulon sem talinn er vera einn fremsti - ef ekki sá fremsti á svæðinu. Raunar ganga sumir svo langt að segja að Tempier sé sá framleiðandi sem nota eigi sem viðmið þegar gæði Bandol-vína eru metin. Það er Peyraud-fjölskyldan sem hefur annast Domaine Tempier frá því á fjórða áratug síðustu aldar (er ungur maður úr Peyraud-fjölskyldunni giftist inn í Tempier-fjölskyduna) og hefur lagt mikinn metnað í að Bandol-vínin komist á kortið ekki bara sem gæðavín heldur vín sem hefur sýnt og sannað að það geti þroskast og batnað við langtímageymslu ekki síður en frægustu vín Bordeaux og Rónardalsins. Þrúgan sem myndar uppistöðuna í Tempier heitir Mourvédre og er hún einnig töluvert notuð í Rón og er m.a. að finna í flestum Chateauneuf-de-Pape blöndum.

Domaine Tempier 2003 er stórt vín, rúsínur, rauðir ávextir, rósir og áfengi (þetta er 14% bolti) í nefi í bland við hesthús og leður sem eru rétt farin að gægjast fram. Allt yfirbragð ungt, það er frábært núna en geymsla í 5-8 ár myndi verðlauna þá er hafa ánægju af þroskuðum vínum. 2.690 krónur. 19/20.

Annað suður-franskt rauðvín sem nú er nýbyrjað í reynslusölu er Mas de Gourgonnier 2003 sem er lífrænt ræktað vín frá framleiðslusvæðinu Les Baux de Provence. Ungt og öflugt, þungur, þurr og kröftugur dökkur berjaávöxtur, töluverð eik og þurrkaðar jurtir, jarðbundið og heitt. Í munni bjart og sýrumikið með kröftugum tannínum. Hefði gott af 1-2 ára geymslu en blómstrar vel og mýkist með mat. Þetta er einstaklega gott vín á hvaða mælikvarða sem er, en á því verði sem það býðst er það með bestu kaupum í vínbúðunum í dag. 1.590 krónur. 19/20.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home