sunnudagur, september 04, 2005

Folaldakjöt, Sandrone og Þorvaldur Skúlason

Vorum á opnun í Listasafni Íslands í gær. Verk Þorvaldar Skúlasonar stóðu upp úr. Mamma sagði mér þegar hann kom á Matstofu Austurbæjar til afa, fátækur einfari og hálf ræfilslegur með lúinn hatt. Kjarval borðaði þar líka, aðallega skyr, og gerði upp reikninginn með málverki. Amma og afi vildu þó bara kurteislega fá lítið málverk enn ekki það stóra sem hann bauð þeim!!!

Við hittum Þorra og Sigrúnu á opnuninni, þau voru sammála okkur um hið mikla ágæti verka Þorvaldar. Þau lofuðu líka folaldakjöt sem þau voru nýbúin að kaupa í Hagkaup og sögðu mér hversu sýran og biturleiki hins magra og mjúka folaldakjöts smellpassaði með ítölskum rauðvínum, sérstaklega frá Toscana og Piemonte, en ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir í fljótu bragði að hafa borðað folaldakjöt öðruvísi en í bjúgum fyrir utan grafið að hætti Ostabúðarinnar Skólavörðustíg. Ég skundaði því í Hagkaup og keypti síðustu fillet-sneiðina og svolítinn innanlærisvöðva.

Í kvöld skellti ég þessu á grillið og drukkum við með Barbera d'Alba 2002 frá Luciano Sandrone, mikið ítalskara verður það ekki. 2002 árgangurinn í Piemonte var slæmur og framleiddi Sandrone nánast engin Barolo vín það árið. 2002 Barbera d'Alba frá Sandrone fékk t.d. einungis 83 stig í Wine Spectator en þá lágu einkunn verðskuldar vínið þó alls ekki. Meira að segja sum skjaldbökuvínin frá Ástralíu (fjöldaframleidd vörumerkjavín með dýri á miðanum) fá hærri einkunn. Það sýnir reyndar hversu einkunnir WS eru oft á skjön þegar ólíkir einstaklingar gagnrýna ólík landssvæði.

Barbera d'Alba frá Sandrone er heillandi vín með mikla og opna angan af sætum berjum (sólber segir Rakel) og vanillu úr eikinni, kjöti og jörð. Það er hellingur af "terroir" í þessu víni. Rakel fann líka appelsínu, eða frekar granatepli (sammála). Vínið er mjög jarðbundið og einhvern veginn einlægara en í sumum "betri" árgöngum. Það er helst að veikleiki árgangsins komi í ljós í munninum því vínið er einstaklega sýrumikið, jafnvel fyrir Barbera sem er annars mjög sýrurík þrúga. Tannín eru mild og vínið ákjósanlegt með feitum mat þar sem sýran heggur á fituna og lyftir honum upp.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home