föstudagur, september 02, 2005

Eina Chianti Classico frá 2002 sem Þorri er sáttur við

Eins og Steingrími í Morgunblaðinu, sem gaf Fontodi Chianti Classico 2002 19/20 stig, finnst Þorra vínið mjög gott — í nýjasta Gestgjafanum gefur hann því fjögur glös og nafnbótina "mjög góð kaup".

"Þetta Chianti Classico vín er frá 2003 [hann hafði réttan árgang í fyrirsögn en rangan í texta, á að vera 2002] er sennilega það eina í þessum slaka árgangi sem ég hef verið verulega sáttur við (en verð auðvitað að taka það fram að ég hef ekki smakkað þau öll) en það er ljóst að hér hafa framleiðendur valið þá leið að skera mikið niður og velja einungis allra bestu þrúgurnar til að gæðin tækju ekki mikla dýfu eftir alla þessa góðu árganga á undan. Það er ríflega meðaldjúpt að lit með kirsuberjarauðan lit og þéttan kannt, þurrt og þétt í nefi og vel opið með flókinn ilm sem maður verður lengi hugsi yfir, enda eru þarna glefsur af kirsuberjum, vanillu, lakkrís, leðri, þurrkuðum berjum, nýrri mykju og reyktóbaki svo fátt eitt sé talið. Í munni er það einnig þétt, þurrt og flott. Ákaflega vandað og vel gert vín, ríkt af bragði, tannínum og sýru. Það er dæmigert fyrir héraðið og þrúguna með margslungið bragð af dökkum berjum, kirsuberjum, vanillu og hrámarsípani, kryddjurtum, tóbaki og jörð. Umhellið því núna 4-5 klukkustundum fyrir neyslu og hafið það með flottu nauta- og lambakjöti. Í reynslusölu vínbúðanna 1790 kr. Mjög góð kaup. Hiti: 17-19°C. Geymsla: Þetta vín getur þroskast næstu 7-9 árin í góðum kjallara."

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home