fimmtudagur, september 15, 2005

Dark, dense and chewy - Vinas de Gain frá Artadi

Oft þarf ég að taka dágóða stund til að finna réttu orðin til þess að lýsa víni. Þá dettur mér stundum í hug orð sem ég þekki úr öllum þeim bókum og tímaritum er fjalla um vín á ensku en get með engu móti þýtt með góðu móti.

Það er einhvern veginn ómögulegt að segja að mér þyki Vinas de Gain 2002 frá Artadi tyggilegt, tyggjanlegt eða tuggið heldur virkar betur að kalla það "chewy". "Chewy" vín er vín sem er dáldið holdugt, kjötmikið en ekki of þungt heldur gott að kjammsa dáldið á, það fyllir vel í góminn, er mátulega stamt og bragðending frekar löng.

M.ö.o. "tyggilegt".

Það er ekki beinlínis hægt að segja að Vinas de Gain frá Artadi hafi flogið úr hillum Vínbúðanna og mun það væntanlega ekki gera það héreftir nema þá beint til himna — þegar það lýkur árssamningi sínum á Reynslu. Vonandi verða þó einhverjir búnir að tryggja sér flösku eða þrjár áður en yfir lýkur því þetta er svo sannarlega gott vín. Steingrímur gaf því 18/20 stig í Mogganum og kallaði það m.a. "fágað og flott".

Þannig fannst mér vínið akkúrat vera þegar ég smakkaði það fyrst í Barcelona fyrir um ári síðan. Það smellpassaði líka með spænsku hráskinkunni og kjötinu er á eftir fylgdi. Þetta er talsvert höfugt vín, í nefi vottur af myntu, krækiber og áberandi sætuvottur sem Steingrímur kallar "kókoskonfekt" en Rakel "appelsínumarsípan". Ávöxtur er nokkuð þéttur; "mikill svartur ávöxtur í munni" segir Steingrímur. Það vottar af biturleika sem gerir það að verkum að vínið hentar betur með mat en eitt og sér — hver drekkur vín ein og sér hvort sem er.

Annað erum við Steingrímur sérstaklega sammála um, vínið er "alls ekki dæmigert fyrir héraðið". Rioja vín hafa stundum verið dáldið þreytt eftir langa eikarlegu finnst mér en hér er á ferðinni ungt og sjálfstætt vín. Það ber vott um frönsk áhrif en sömuleiðis finnst mér ég finna tengingu við Torbreck frá Ástralíu. Hugsanlega er það vegna þess að vínviðurinn er gamall eins og í Torbreck vínunum, sætan í nefinu ber vott um það.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home