mánudagur, ágúst 29, 2005

Búrgúndarhvítvín og "Búrgúndarhvítvín"

Grilluðum humar um helgina og buðum Valgeiri og Francois. Pennslaði olíu með hvítlauk á humarinn og bar svo fram með kryddsmjöri og ristuðu brauði. Einfalt og hrikalega gott.

Humar finnst mér alltaf kalla á svolítið ristuð hvítvín, þ.e.a.s. sem hafa verið þroskuð í eikartunnum að einhverju leyti. Chardonnay finnur sér ekkert ýkja oft stað í okkar eldamennsku en með humri er það eðal þó vissulega komi aðrar þrúgur vel til greina. Af okkar vínum gæti ég nefnt t.d. Plenio frá Umani Ronchi úr Verdicchio þrúgunni, Ferentano frá Falesco úr Roscetto þrúgunni, Woodcutter frá Torbreck úr Semillon þrúgunni og Santagostino frá Firriato úr Cataratto (og smá Chardonnay) sem öll eru þroskuð í eikartunnum að hluta í stuttan tíma.

Við drukkum hið sikileyska Santagostino, 2004 árgang. Ég hef drukkið það áður með humri og fellur það einstaklega vel með honum. Það er nefnilega ekki bara ristað og smjörkennt heldur einstaklega ferskt. Þessi hóflega eik, vanilla og smjör sem finnst í víninu og sú staðreynd að það er að hluta Chardonnay gerir það að verkum að vínið minnir mig mikið á góð Búrgúndarhvítvín. Búrgúndarhvítvín eru öll úr Chardonnay.

Síðan drukkum við alvöru Búrgúndarhvítvín sem ég hef geymt í nokkur ár: Meursault Cuvée Charles Maxime 1998 frá Domaine Latour-Giraud. Vínið keypti ég í Boston og hef þvælst með yfir Atlantshafið til Ítalíu og síðan til Íslands — kannski ekki furða að hin flaskan sem ég keypti hafi skemmst. Þessi var hins vegar í súperfínu lagi, ekta Búrgúndarhvítvín með smjöri, hóflegum eikartónum, mildum en djúpum ávexti og ennþá mjög ferskt. Sorglegt að ég eigi ekki meira því ég hefði gjarnan vilja sjá það þroskast næstu 5 árin eða svo.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home