mánudagur, ágúst 29, 2005

Búrgúndarhvítvín og "Búrgúndarhvítvín"

Grilluðum humar um helgina og buðum Valgeiri og Francois. Pennslaði olíu með hvítlauk á humarinn og bar svo fram með kryddsmjöri og ristuðu brauði. Einfalt og hrikalega gott.

Humar finnst mér alltaf kalla á svolítið ristuð hvítvín, þ.e.a.s. sem hafa verið þroskuð í eikartunnum að einhverju leyti. Chardonnay finnur sér ekkert ýkja oft stað í okkar eldamennsku en með humri er það eðal þó vissulega komi aðrar þrúgur vel til greina. Af okkar vínum gæti ég nefnt t.d. Plenio frá Umani Ronchi úr Verdicchio þrúgunni, Ferentano frá Falesco úr Roscetto þrúgunni, Woodcutter frá Torbreck úr Semillon þrúgunni og Santagostino frá Firriato úr Cataratto (og smá Chardonnay) sem öll eru þroskuð í eikartunnum að hluta í stuttan tíma.

Við drukkum hið sikileyska Santagostino, 2004 árgang. Ég hef drukkið það áður með humri og fellur það einstaklega vel með honum. Það er nefnilega ekki bara ristað og smjörkennt heldur einstaklega ferskt. Þessi hóflega eik, vanilla og smjör sem finnst í víninu og sú staðreynd að það er að hluta Chardonnay gerir það að verkum að vínið minnir mig mikið á góð Búrgúndarhvítvín. Búrgúndarhvítvín eru öll úr Chardonnay.

Síðan drukkum við alvöru Búrgúndarhvítvín sem ég hef geymt í nokkur ár: Meursault Cuvée Charles Maxime 1998 frá Domaine Latour-Giraud. Vínið keypti ég í Boston og hef þvælst með yfir Atlantshafið til Ítalíu og síðan til Íslands — kannski ekki furða að hin flaskan sem ég keypti hafi skemmst. Þessi var hins vegar í súperfínu lagi, ekta Búrgúndarhvítvín með smjöri, hóflegum eikartónum, mildum en djúpum ávexti og ennþá mjög ferskt. Sorglegt að ég eigi ekki meira því ég hefði gjarnan vilja sjá það þroskast næstu 5 árin eða svo.

föstudagur, ágúst 19, 2005

100% lífræn vín

Það er ekkert sérstakt keppikefli hjá mér að flytja inn vín sem eru lífræn. Góðir framleiðendur eru líka alltaf mjög meðvitaðir um heilsu plantanna og gæði jarðvegarins og nota því aldrei slæm efni nema af ítrustu varkárni og neyð. Vínin þeirra eru þó ekki 100% lífræn skv. ströngustu reglum. Engu að síður geta þau verið 100% lífræn, a.m.k. sum, í þeim árgöngum sem veðurfar er hagstætt og ávöxturinn heilbrigður af náttúrulegum ástæðum. Sem sagt, gæðaframleiðendur eru líklegir til að vera allt að því- eða fullkomnlega lífrænir jafnvel þótt það komi hvergi fram á flösku með opinberum stimpli.

"Lífrænt" er að mörgu leyti ákveðinn gæðastimpill. Yfirleitt eru lífrænir framleiðendur ekki bara ástríðufullir áhugamenn um heilbrigði lífríkisins alls heldur er þeim annt um að meðhöndla afurðina sem minnst. T.d. er líklegt að lífrænn vínframleiðandi noti minna súlfat og bæti minni sykri (ef það er leyfilegt á annað borð) o.s.fr.v. en framleiðendur geta víða notað hvort tveggja og samt kallast lífrænir. Hugtakið er því hægt misnota, t.d. lífræn vara sem framleidd er einungis til að uppfylla það skilyrði án þess að vera annt um gæði hennar að öðru leyti.

Vín & matur flytur inn nokkur 100% lífræn vín, ekki út af því að þau eru lífræn heldur út af því að þau eru góð.

- Fontodi Chianti Classico
- Mas de Gourgonnier Les Baux de Provence
- Casa de la Ermita Organic Crianza

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Extra, extra! Forstjóri ÁTVR hissa á Víni & mat

Fyrir tæpum mánuði síðan sendi ég bréf til Höskuldar, forstjóra ÁTVR, með nokkrar tillögur sem m.a. höfðu það að markmiði að auka fjölbreytni í hillum Vínbúðanna. Bréfið verður birt á blogginu í (mikið) styttri útgáfu og einnig verður sérstök útgáfa send í Moggann ef ég verð ekki drukknaður í vefsíðugerð fyrir Vín & mat. Höskuldur svaraði bréfinu og kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Tveimur vikum síðar eða svo skrifaði Steingrímur í Morgunblaðið grein sem gagnrýnir einmitt innkaupareglur ÁTVR fyrir þá einhæfni sem þær hafa stuðlað að og að endurbættar reglur sem samþykktar voru um mánaðarmótin breyti engu þar um.

Eftir birtingu greinar Steingríms var hringt í nokkra innflytjendur gæðavína, Vín & mat m.a., til að kanna viðbrögð. Í stuttu máli sagt tók ég og hinir vel í grein Steingríms.

Þá var viðtal við Höskuld á Rás 2 og hann var alveg hlessa á þessum viðbrögðum birgjanna. Ég hef ekki heyrt viðtalið en hann ku hafa talað um Vín & mat, án þess að nafna nafnið, og furðað sig á þessum kvörtunartón.

Jæja, fréttin sem birtist í Mogganum var reyndar meira í æsifréttastíl og við birgjarnir kannski ekki alveg eins æstir og þar kom fram.

Ég hef hins vegar bara gaman að þessu og svolítið montinn að forstjóri ÁTVR sé að agnúast út í mann í útvarpi allra landsmanna.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Domaine Tempier - Cuvee Classique 2003

75% Mourvedre, restin Grenache, Cinsault og 3% Carignan. Þroskað 18 mánuði í eikartunnum.

Ég smakkaði þetta vín síðast í júní þar til núna í kvöld. Ég var þá að lesa bók e. Richard Olnay sem inniheldur uppskriftir frá Lulu í Domaine Tempier og fróðleik um fjölskylduna og vínin... þar til ég stóðst ekki mátið, stökk á fætur og opnaði flösku. Nú liggur eitt glas í valnum, restin býður morgundagsins.

Allt við þetta vín er hefðbundið, í góðum skilningi þessa orðs. Miðinn hefur t.d. verið óbreyttur í 50 ár frá því vínið kom fyrst á markað, nokkurn veginn í þeirri mynd sem það er nú fyrir utan að hlutur Mourvedre hefur aukist í blöndunni.

Liturinn er fallegur, fremur ljós en djúpur, fjólublár með rauðbrúnni slykju og líkist því nokkuð góðu Búrgúndarrauðvíni.

Ilmurinn úr flöskunni var sætur, minnti mig á kanil og panna cotta. Glasið var fyrst um 0.5m frá mér og barst ilmurinn auðveldlega til mín. Án þyrls fann ég hlýjan ilm af kanil, sætu kryddi t.d. basíliku og svörtu "winegums". Við þyrl bættist lakkrís, áfengi og sýra, rjómi, steinefni og trjágróður. Mjög þéttur og fókuseraður ilmur með ótal fínlegri blæbrigðum sem hægt væri að skrifa eins langt ímyndunaraflið nær. Minnir aðeins á Barolo frá Sandrone í bæði ilmi og lit.

Öflugt í munni, sýruríkt og tannískt, villt sbr. gróður og sveit en vel gert. Hentar kröftugum mat sbr. Provence með t.d. hvítlauk, tómötum, fersku kryddu o.s.frv.
Rakel fann hlýja berjalykt og smá myntu, græna "lykt" t.d. lyngt. Reyndar segja þeir hjá Tempier sjálfir á vefsíðu sinni að maður finni "mosa" og hitta þeir naglann á höfuðið að sjálfsögðu. Rakel fannst vínið mjúkt og sætt fyrst í munni sem verður svo töluvert kryddað með keim af myntu.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Meira af rósavíni


Fyrir stuttu fjallaði ég um rósavínið frá Tempier í Bandol, hugsanlega frægasta rósavín í heimi. Ég var þá nýbúinn að smakka nýja sendingu af víninu og reyna að kryfja það til mergjar.

Í bók sem ég á uppí hillu, Bacchus & Me, eftir Jay McInerney er einn kaflinn tileinkaður rósavínum. Höfundur rekur hvernig hann hefur upplifað rósavín í gegnum árin allt frá því hann pantaði Mateus rósavín með miklu stolti á fyrsta stefnumótinu sínu. Lítil þekking er þó oft verri en engin og eftir því sem vínkunnátta hans óx lærði hann að fordæma rósavín sem hann taldi þá vera hinn göróttasta drykk.
"Later, of course, as I discovered the joys of dry reds and whites, I learned to sneer at pink wine; it seemed—as Winston Churchill once remarked regarding the moniker of an acquaintance named Bossom—that it was neither one thing nor the other."
Þekking hans óx síðan enn frekar þar til hann lærði að taka þau aftur í sátt. Hann lýsir reynslu sinn af gæðarósavíni frá S-Frakklandi svo:
"I thought I´d died and gone to Provence, though in fact I was at my friend Steve's birthday party in the Hamptons."
Hann heldur síðan áfram og talar um almenna fordóma fólks gagnvart rósavíni og kennir því meðal annars fjöldframleiðslu af lélegum rósavínum eins og Blush og White Zinfandel frá Kalíforníu. Samt vill hann hiklaust meina að rósavín megi ekki taka of alvarlega, þau séu fyrst og fremst vín augnabliksins:
"Anyone who starts analysing the taste of a rosé in public should be thrown into the pool immediately."
Þar liggur hnífurinn grafinn. Jafnvel gæðarósavín eins og frá Tempier á ekki að taka of alvarlega heldur njóta þess, rösklega, með þeirri fjölbreyttu matargerð sem það passar við.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Þorri gefur skógarhöggsmanni fjögur glös


Í sama blaði og La Primavera umfjöllunin fjallar Þorri um hvítvínið Woodcutter's Semillon 2003 frá Torbreck:

"Sem betur fer rekur stundum á fjörur Íslendinga framúrskarandi vín sem enginn sem áhuga hefur á víni ætti að láta fram hjá sér fara ."
Ok, ekki slæmt.

"Eitt þeirra er þetta semillon frá Barossa í Suður-Ástralíu, framleitt í víngerðinni Torbreck sem er lítil en umtöluð og eru vínin þaðan á flestum, ef ekki öllum, listum yfir bestu vín þessarar heimsálfu."
Vá, en hvernig smakkast það ?

"Það hefur ljósan, strágylltan lit og meðalopna angan af soðnum eplum, honeydew-melónu, apríkósukompotti, ananas og naglalakki og það er einnig vel jarðtengt með angan af steinefnum. Í munni er það verulega spennandi og karaktermikið með góða fyllingu, langt og nánast þykkt bragð sem er sýruríkt og ferskt. Þarna eru glefsur af eplum, appelsínuberki, apríkósum, vanillu og rjóma. Þetta er matarmikið og skemmtilegt hvítvín sem bætir miklu við einsleitt úrval hvítvína frá Ástalíu."
Þorri, með hvaða mat er það best ?

"Hafið það með bragðmiklum fiskréttum, fjúsjónmat, ljósu fuglakjöti og asískum réttum."

En Þorri, hvar fæst það ?
"Í reynslusölu ÁTVR 1980 kr. Mjög góð kaup. Hiti 8-20°C. Geymsla: Getur örugglega geymst í þónokkur ár en er ákaflega gott nú þegar."
Takk Þorri.

Vínlistinn á La Primavera

"Vínlistinn á La Primavera er kapítuli út af fyrir sig. hann er sérlega vel heppnaður og hægt er að finna þar mörg frábær vín frá Ítalíu. Ef eitthvað er hefur hann tekið framförum frá því fyrir fjórum árum ... Frábær vínlisti."
Segir Þorri í nýjasta hefti Gestgjafans þar sem hann gefur veitingastaðnum La Primavera frábæra dóma og 4 1/2 stjörnu. Ég er dálítið stoltur af þessari umfjöllun um vínlistann. La Primavera byrjaði að kaupa af Vín & Mat fyrir 1.5 ári síðan og hefur vínum frá okkur á listanum fjölgað síðan þá - hann hefur, hmm..."tekið framförum". Í dag á enginn birgir eins mörg vín og Vín & Matur á vínlistanum.

Ekki hef ég pressað mikið á La Primavera til að ná svo mörgum vínum þar inn né hef ég boðið eigendum, Leifi og Ívari, til Kuala Lumpur. Gæði vínsins er eina skilyrðið, sem sýnir hversu mikill gæðaveitingastaður La Primavera er og mun vera um ókomin ár.

Vínin frá okkur á La Primavera eru:
Hvítt:
- Chiaramonte frá Firriato
- Vitiano Bianco frá Falesco
- Casal di Serra frá Umani Ronchi
- St. Valentin Sauvignon Blanc frá Appiano
- St. Valentin Gewurztraminer frá Appiano
Rautt:
- Chianti Classico frá Fontodi
- Flaccianello frá Fontodi
- Teroldego frá Foradori
- Nebbiolo d'Alba frá Luciano Sandrone
- Harmonium frá Firriato
- Sagrantino di Montefalco 25 Anni frá Arnaldo Caprai
Sætt:
- Vin Santo frá Fontodi
Grappa:
- Tiziano frá Rietine