föstudagur, júlí 29, 2005

Pinot Nero "Case Via" frá Fontodi

Það er ekki beinlínis hægt að segja að Ítalir séu duglegir að gera vín úr þrúgunni Pinot Noir - betur þekktri sem Sideways þrúgan - enda víðast hvar of heitt fyrir þessa viðkvæmu þrúgu.

Fontodi í Chianti Classico framleiðir eitt slíkt, Pinot Nero "Case Via". Þegar við heimsóttum hann í vor fengum við eina flösku frá 1995 að gjöf svo við mættum komast að því hversu vel það gæti elst og þroskast.

Ég verð stundum pínulítið dapur þegar ég drekk vín eins og þetta, gerist t.d. oft þegar ég drekk sætvín. Hef ekki fundið almennilega skýringu á þvi en það hefur eitthvað að gera með það hvernig í einni flösku er hægt að samræma og hámarka gæði náttúru og mannlegrar getu. Þetta gerist ekkert frekar í ógurlega dýrum vínum heldur vínum sem hafa einhverja einlægni, jafnvel hógværð, samt mikinn karakter og jafnvægi sem endurspegla uppruna þeirra og gerir þau einstök.

Í punktunum mínum frá kvöldinu sem við drukkum vínið var ég sem sagt kominn í tragískar stellingar yfir þessu öllu saman og reyndi að finna útskýringar í grísku goðafræðinni á þessu ástandi án árangurs.

Vínið: Rakel fann sjávarilm í nefinu, skelfisk og sjávarseltu, og fannst mér það góður punktur enda hún með miklu betra og huggulegra nef en ég - en til þess að líta ekki illa út bætti ég við "já, svona eins og var á fiskistaðnum í sjávarmálinu við Adríahafið sem við heimsóttum í vor !". Rakel fann líka sæt ber (já) og tóbak (já) og kaffi (tja) í bragði. Ég fann líka appelsínu (þá sagði Rakel "blóðappelsína" sem var náttúrulegra réttara). Ég skrifaði líka ein hvers staðar "Fallegt vín - langar að gráta" en þá var ég á viðkvæma stiginu (sjá hér ofar). Liturinn var ljós að hætti Pinot Noir en djúpur og tær með aðeins appelsínuryðrauðan blæ. Þægileg sýra og mild tannín, svolítið ryðgað (jarðvegur) og sveitalegt. Frábært jafnvægi.

Niðurstaða: a) ég er hugsanlega ekki grískur hálfguð, b) já, þetta vín eldist vel og ég myndi gjarnan vilja meira.

mánudagur, júlí 25, 2005

James Halliday elskar Torbreck

Vínrýnir dagblaðsins The Australian, James Halliday, var boðið ásamt öðru fyrirfólki í vínsmakk og matarboð til Torbreck (sjá grein). Hvert vín Torbreck kemur frá nokkrum mismunandi skikum sem hver hefur sinn karakter og var gestum boðið að smakka afurð hvers skika áður en þeim var blandað saman til að búa til hina endanlegu vínblöndu/vínflösku. Hr. Halliday var vægast sagt hrifinn af vín & mat, sem var matreiddur af Tetsuya Wakuda frá Sidney.

"Both as a winemaker and journalist I have been in countless such tastings but never has one fascinated me as much as this."
Síðasti skikinn sem var "smakkaður" var Moppa Shiraz:

"...the Moppa Shiraz, the 128 year old vines yielding half a tonne to the hectare and the cornerstone of RunRig, did flights of poetic fantasy come to a halt in the face of a wine of an intensity and lenght of flavour beyond anything I have previously encountered: essence of shiraz."

Woodcutter's Shiraz 2004 frá Torbreck gefur Halliday 91 stig. Það mun fást í Vínbúðunum Heiðrúnu og Kringlunni 1. okt.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Rauða rækjan

Það er hentugt að vísa í bók Gambero Rosso (rauða rækjan), Vini d'Italia, þegar fjallað er um ítölsk vín því einnkunnir þeirra ná yfir næstum alla framleiðendur þar í landi. Hún kemur út á hverju ári með einkunnum nýjustu árganga. Þeir gefa fjölda glasa eftir gæðum vínsins og getur vín fengið hæst 3 glös, svokölluð TRE BICCHIERI. 264 vín fengu TRE BICCHIERI í 2005 útgáfu bókarinnar.

3 glös - framúrskarandi vín
2 lituð glös - mjög góð vín sem komust í lokaumferð til þess að hljóta 3 glös en urðu ekki fyrir valinu
2 glös - mjög góð vín
1 glas - góð vín
0 glös - meðalgóð vín

M.ö.o. aðeins frambærileg vín hljóta yfir höfuð umfjöllun í Gambero Rosso, þau sem ekki hljóta einkunn hafa ekki verið nógu góð til þess að hljóta náð fyrir útgáfuna eða framleiðandinn ekki sent sýnishorn af því - sem gerist stundum þegar vín er ekki tilbúið er einkunnagjöfin fer fram. Vín framleidd í agnarlitlu upplagi fá ekki heldur einkunn sem útskýrir fjarveru margra sætvína.

Stjarna (*) aftan við ákveðið vín þýðir "góð kaup".

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Tesco eykur fjölbreytni

Tesco, sem selur 20% af víni á breska smásölumarkaðinum, hefur ákveðið að fækka víntegundum svk. grein á Decanter.com.

Þeir eru orðnir þreyttir á einsleitum og endalausum röðum af billegu Chardonnay og Shiraz. Í staðinn vilja þeir leggja meiri áherslu á breidd, sérstaklega í aðeins dýrari vínum.

"meiri áherslu á breidd, sérstaklega í aðeins dýrari vínum"

Óskandi ef þetta væru einkunnarorð ÁTVR. Hið núverandi, sjálfvirka innkaupakerfi ÁTVR gerir það hins vegar að verkum að þeir standa ráðalausir gagnvart einsleitninni.

Losun Tesco bitnar sérstaklega á áströlskum vínum þar sem einsleitnin hefur verið hvað mest (þ.e. vörumerkjavínin svokölluðu). Miðað við stærð Tesco eru þetta slæmar fréttir fyrir Ástrali sem eiga við offramleiðslu af víni að stríða um þessar mundir.

föstudagur, júlí 15, 2005

d'Arenberg Cadenzia 2003

"In 2004, some of McLaren Vale’s top winemakers agreed to each release a wine under the name ‘Cadenzia’. Cadenzia has been taken from the meaning of cadenza, ‘a soloist virtuoso’, as inspiration to each winemaker to produce a wine with distinct regional identity featuring Grenache. "
Þessi texti af vefsíðu d'Arenberg lýsir nýjasta víninu þeirra Cadenzia 2003 og er það Grenache ásamt Shiraz og Mourvedre (GSM). Flöskunni er lokað með Zork.

Ég sit núna fyrir framan tölvuna og er að smakka þetta vín í fyrsta sinn. Ilmurinn er ótrúlega heillandi og sterkur og má finna þar eiginleika allra þrúganna þriggja. Mikil og góð fylling, mynta og jörð til að skapa karakter og jafnvægi, fín sýra og mild tannín.

Ég sendi tengiliði mínum hjá d'Arenberg, Cindy, póst og sagði henni að vínið "blew my socks off". Það mun verða eitt af 4 rauðvínum frá d'Arenberg sem koma í Vínbúðirnar í haust.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Er bara vín í víninu ?

Ég fæ oft þessa spurningu. Sumir halda nefnilega að vín sé vín og nákvæmlega ekkert annað. Að vísu er vín ein náttúrulegasta afurð sem hægt er að neyta en þó er leyfilegt að bæta ákveðnum efnum samanvið.

Í síðasta bloggi sagði ég frá því að Bandaríkjamenn mættu bæta vatni í vínið. Það er bannað í Evrópu. Sums staðar í Frakklandi og víðar má bæta við sykri á meðan nánast öll Nýja Heimsríkin bæta við hinum ýmsu tegundum af sýru. Allt eru þetta efni sem finna má þegar í víninu og því felst viðbótin í að auka vægi ákveðinna þátta til að ná viðunandi jafnvægi.

En súlfúr ?

Það hljómar kannski ekki vel en Súlfur er það efni sem flestir vínbændur eiga sameiginlegt að bæta út í vín. Rétt eins og efnin nefnd hér ofar þá er súlfur þegar til staðar í víninu, t.d. verður það til við gerjun. Það er fyllilega meinlaust nema þeim örfáu sem hafa ofnæmi og finnst ekki í lykt né bragði sé það notað í hófi. Súlfur er spreyjað yfir vínakrana, það er notað til að hreinsa vínframleiðslutæki auk þess sem því er bætt í vínið. Meira að segja framleiðendur lífrænna vína í Evrópu mega nota það.

Til eru framleiðendur sem flagga því að þeir bæti ekki súlfur við vín og geta vín þeirra fyrir vikið oft verið mjög ilmrík þegar þau eru ung því súlfur getur deyft ilm ungs víns til skams tíma og þarf því að líða einhver tími þar til að áhrif þess dofni. Á hinn bóginn eru vín sem fá ekkert súlfur óstöðugari, eru viðkvæmari fyrir flutningum og hitasveiflum, eru líklegri til að skemmast vegna óhreininda osfrv. Vín án viðbæts súlfurs þarf því að meðhöndla með sérstaklega miklu hreinlæti og ávöxturinn þarf að vera afar heilbrigður ef ekki á að fara illa.

mánudagur, júlí 11, 2005

Vín úr vatni

Í Biblíunni eru mörg góð dæmi sem sýna hversu neysla víns á sér langa og eðlilega sögu. Í brúðkaupinu í Kana (Jóhannesarguðspjall 2) hvetur móðir Jesús hann til að búa til meira vín þegar birgðir þrjóta. Hann breytir vatni í vín sem verður hans fyrsta kraftaverk.

Í heimi hins venjulega manns er vín hins vegar vín og vatn eitthvað allt annað - nema maður búi í Bandaríkjunum !

Enn á ný er komin upp sú staða í Evrópu að hefta aðgang bandarískra vína sem blönduð hafa verið með vatni en eru engu að síður kölluð "vín". Í Bandaríkjunum má nefnilega búa til vín úr vatni, þ.e.a.s. bæta vatni samanvið til að lækka alkóhól, eða vatni og sykri til að framleiða meira alkóhól til jafnvægis háu sýrustigi. Augljóslega eykst magn framleiðslunnar jafnframt við þessa ódýru viðbót. Þetta á þó yfirleitt aðeins við súpermarkaðsframleiðendurna stóru.

30% af heildarvínframleiðslu Evrópu fer hins vegar til Bandaríkjanna og því ólíklegt að nokkrar hömlur verði settar.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Tempier Bandol Rose 2004

Smakkaði þennan árgang í fyrsta skipti fyrir nokkrum dögum. Þetta er sá árgangur sem nú fæst í Vínbúðunum. Það kom mér á óvart hversu lokað vínið var og velti ég því fyrir mér hvort hugsanlega væri það enn að jafna sig eftir ferðalagið því það er þekkt að vín sem eru mjög náttúrulega eins og þetta og hafa ekki verið stabílíseruð eru viðkvæm fyrir ferðalögum og geta þurft tíma til að jafna sig - það eru aðeins 2 vikur síðan það kom til landsins. Sömuleiðis var vínið smakkað fyrst of kalt - þetta er ekki eins og önnur rósavín sem drekkast beint úr ísskápnum. Kuldinn deyfir fínlegan en heillandi ilminn - það sýndi sig líka að þegar það var búið að standa var það búið að opna sig mun betur.

Þetta vín er því best að drekka við "kjallarahita", svona 15°C, og allt í lagi að leyfa því að standa opið í 2 tíma, jafnvel meira. Liturinn er fallega laxableikur og finnur maður á byggingu þess að það á mikið inni og verður eflaust enn betra næsta sumar.