laugardagur, júní 04, 2005

Ítalíuheimsókn - Dagur X

Heathrow - Aukadagur

Vorum stand-by í hádeginu en vélin var full svo við þurftum að bíða á vellinum eftir kvöldfluginu.

Af hverju er ekki kvikmyndahús á flugvöllum ?

Ítalíuheimsókn - Dagur IX

Trentino - Foradori
og heimferðin... eða það héldum við amk.

Vöknuðum tímanlega því við þurftum að mæta til Foradori í nágrannahéraðinu Trentino (reyndar eru héruðin tvö oft nefnd sem eitt Trentino-Alto Adige) uppúr 9.00, ca. 45 mínútna keyrsla. Náðum fyrst morgunverði og var hann góður og girnilegur að hætti 1. flokks hótels.

Hjá Foradori tók hin ljúfa Tiziana á móti okkur því eigandinn, framkvæmdastjórinn, víngerðarmaður, fjallgöngugarpurinn og fjögurrabarnamóðirinn Elisabetta Foradori var á ferðalagi. Tiziana var sjálf að þjóta út á land með vínkynningu og stoppuðum við því stutt. Röbbuðum og skoðuðum vínekrur áður en við héldum inn og smökkuðum gegnum framleiðsluna. Það var ekki lengi gert því ólíkt Appiano í Alto Adige sem framleiðir 35 vín gerir Foradori aðeins 3. Að vísu smökkuðum við nokkra ólíka árganga...

Teroldego-ið þekkti ég vel, sömuleiðis Granato en það sem kom mér á óvart var hvítvínið Myrto sem mér hafði áður fundist ágætt en fannst nú (og Rakel líka) einstaklega gott. Það var 2001 árgangur og líklegast þarf vínið því dálítinn tíma í flösku til að sýna sínar björtustu hliðar - það er gert úr 60% Sauvignon Blanc, 20% Manzoni, sem er bræðingur af Riesling og Pinot Bianco, og síðan 20% Pinot Bianco.

Elisabetta Foradori er einstakur framleiðandi fyrir Trentino héraðið. Ólíkt Alto Adige hafa samyrkjubúin og risafyrirtækin hér lítinn metnað og sans fyrir gæðum. Bændum er borgað fyrir magn frekar en gæði sem er fínt fyrir þá og hafa þessi fyrirtæki því tangarhald á langstærstum hluta vínekranna í héraðinu. Það gengur þess vegna erfiðlega fyrir Foradori að kaupa fleiri vínekrur og auka framleiðsluna. Kannski þess vegna hefur Elisabetta ákveðið að kaupa vínekrur í Maremma í Toscana og er fyrsta árgangsins beðið með eftirvæntingu.

Síðan var ekið til Mílanó og beðið á Malpensa flugvelli í einhverja klukkutíma eftir fluginu heim. Sem betur fer ákváðum við þó ekki að stoppa í Veróna á leiðinni þrátt fyrir nokkra aukaklukkutíma því traffíkin reyndist þung í kringum Mílanó og alveg nóg fyrir okkur að missa einu sinni af flugvél í þessari ferð.

Og í kvöldmatinn... Þar sem á flugvöllum er yfirleitt einstaklega vont að borða er best að leita að því sem maður þekkir og hefur mjög ákveðinn gæðastandard sama hvar maður er í veröldinni... McDONALDS !

Síðan mættum við of seint til Heathrow vegna seinkunar og smá aukakróks sem flugstjórinn ákvað að taka 5 sekúndum og 10 metrum áður en við vorum næstum því lent... og misstum af fluginu. Langaði að gista á hótelinu sem er á flugvellinum en það reyndist vera Hilton með 30.000 lægsta tilboð og við hundskuðumst á næstbestahótel í heimi... Comfort Inn ! Ekki er hægt að segja að gæði, fæði og þægindi hafi farið mikið uppávið í lok þessarar annars fullkomnu ferðar því þar kjömsuðum við á BLT samlokum og frönskum í herbergiskytru. Smá huggun þó að rifja upp gamla takta með nafna mínum Adda Svakanagg í Totall Recall.

Ítalíuheimsókn - Dagur VIII

Alto Adige - frídagur

LOKSINS ! Búið að vera frábært ferðalag og vel heppnað fram að þessu en 2000 kílómetrar að baki á einni viku, vaknað síðast kl. 4.00 um nóttina og því hvíldinni fegin.

Hótelið Parkhotel Laurin er fínasta hótelið í Bolzano en ég fékk ágætan helgardíl, 145E per nótt er ekki mikið fyrir hvíld og lúxus. Stór einkagarður með sundlaug inní miðri borg. Hægindastólar á víð og dreif í garðinum og svona hnappur til að stilla tónlistina sem hljómaði út úr ljósastaurunum... og til að kalla á barþjóninn... 5 mín. síðar var ég með ískaldan Martini í hendinni - nei annars, það er bölvuð lygi, hljómaði bara eitthvað svo vel.

Svo var Berlusconi eitthvað að þvælast þarna, mótmælendur fyrir utan og her af löggum en inni var ekki þverfótað fyrir diplómötum og öryggisvörðum.

Ekki furða hvað við vorum útsofin þennan morgun - við "rétt náðum" í morgunmatinn til að komst að því að klukkan var ekki 9.30 heldur 11.30 og fengum því bara spremuta (nýkreistur appelsínudjús) á barnum áður en við keyrðum upp í Dólómítana "smá hring" sem var svona 2.5 tími og náði hæst yfir 2200 metra hæð. Magnaðir þessir Dólómítar og græn hlíðin þar á milli. Adige áin liggur síðan þarna einhvers staðar á milli og vínekrur kramdar sitt hvorum megin.

Um kvöldið fórum við á pínulítinn veitingastað með mjög góðan vínlista Zum Lowen sem Gunther hafði mælt með sem var eða hafði verið með eina Michelinstjörnu - ég man það ekki, hann var amk. tvímælalaust sá besti í ferðinni. Minnti mig svolítið á La Primavera þar sem ítalskar hefðir og fantasía blandast saman. Hægt var að velja um tvo matseðla hússins og valdi ég þann sem byggði á lókal matargerð á meðan Rakel valdi af aðalmatseðlinum. Rabarbari og aspas voru m.a. "in season".

Arnar:
Animelle di vitello nostrano fritte su insalata di patate
(Gebackenes einheimisches Kalbsbries auf Kartoffelsalat.... hljómar bara ekki eins vel !)
Strudel d'asparagi con salsa al sauvignon
(Spargelstrudel mit Sauvignonsose)
Brasato d'agnello nostrano alle erbe con verdure stufate
(Mit Wurzelgemusse und Krautern geschmortes einheimisches Laum)
Canaderli con ragu di rabarbaro
(Copfenknodel auf Rhabarbarragout)

Rakel:
Insalata d'asparagi e gamberi
(Salat von Spargel und Gamelen)
Tortelloni ripieni di ricotta di bufala con asparagi verdi
(Tortelloni mit Buffeltopfen gefullt und grunem spargel)
Og eftirrétt sem ég gleymdi að skrifa niður

Vín:
San Michele Appiano St. Valentin Chardonnay 2003
+ tvö sætvín, annað úr Moscadello frá Caldaro/Kalder en hitt blanda af Moscadello og Sauvignon Blanc frá Tramino/Terminer.

Úff...

Ítalíuheimsókn - Dagur VII

Alto Adige - San Michele Appiano

Vöknuðum 4.00 um nóttina og brenndum af stað til Alto Adige. Það er friðsælt að keyra eftir hraðbrautinni á þessum tíma og víða fallegt, að verða bjart um 5.00. Við vorum "bara" 5 tíma á leiðinni og gekk ferðin vel fyrir utan kafla á Pósléttunni í nágrenni Cremona og Brescia þegar hvolfdist yfir okkar einhver kjötframleiðslusvínastíufnykur sem varaði í heilan klukkutíma... eitthvað gengur þarna á.

Alto Adige/Sud Tyrol, San Michele Appiano/St. Michael Eppan... ÖLL nöfn bæja, vegskilti og nöfn margra fyrirtækja birtust okkur á bæði þýsku og ítölsku. Þetta er skrítið samfélag sem er einhvern vegin bæði ítalskt og austurrískt en þó hvorugt. Í sveitinni er töluð 70% þýska og 30% ítalska fyrir utan eitthvert lókal tungumál, í borginni Bolzano snýst hlutfallið við.

Hinn geðþekki Gunther Neumair tók á móti okkur hjá San Michele Appiano. Hann á ekkert í fyrirtækinu sjálfur, San Michele er nefnilega samyrkjubú, svokallað co-op. Víða á Ítalíu eru co-op vínfyrirtæki hræðilega léleg en í Alto Adige er allt annað upp á teningnum, kannski er það austurríski vinnukrafturinn og samstarfsviljinn. þessir 350 bændur deila svo með sér um 350 vínekrum og því er í nógu að snúast hjá eftirlits- og víngerðarfólki fyrirtækisins til að viðhalda þeim háa standard sem fyrirtækið er þekkt fyrir. Árið 2000 var það nefnilega útnefnt vínframleiðandi ársins af Gambero Rosso og víngerðarmaðurinn Hanz Terzer kallaður einn af 10 bestu... í heimi.

Framleiðslu Appiano er skipt í þrjú þrep. Einna áhugaverðust fannst mér sú staðreynd að fyrir vínin í tveimur efri þrepunum er hver einasti smáskiki gerjaður sér áður en vínið er svo blandað. Það þýðir að fyrirtækið er með her af víngerðartönkum í öllum stærðum, þar af þá smæstu sem ég hef séð - 25hl. Þetta tryggir há gæði því ef öllu væri kærileysislega blandað saman (þ.e.a.s. þrúgunum) og síðan gerjað væri ekki hægt að vega og meta gæði hvers vínskika eftirá hvað þá gera sérstaka blöndu til að hámarka gæðin. það var þó hins vegar gert með ódýrustu vínin sem eru gerjuð í risastórum 500hl. tönkum.

Alto Adige er dýrasta vínsvæði Ítalíu, hver hektari kostar um 500.000 Evrur sbr. 150-200.000 í Chianti Classico. Eigendum vínekranna (kallaðir soci, þ.e.a.s. "meðlimir") er síðan borgað 20-35.000 að meðaltali fyrir þrúgur per hektara, allt eftir staðsetningu og gæðum - en þau eru metin þegar þrúgurnar koma í hús á uppskerutímanum og því talsvert mikið í húfi fyrir vínræktendur að halda háum gæðum. Hjá lélegu co-op væri einfaldlega greitt per kíló og þannig engin hvatning hjá bændum að auka gæði (sem þýðir líka minni uppskera) heldur þvert á móti reyna þeir að framleiða sem mest sem tryggir léleg gæði.

Í hádeginu snæddum við með Gunther í sólinni og 26°C undir berum himni í hlíðum Alpanna. Góður matur og vel úti látinn að sið Austurríkismanna... nei ég meina Ítala...

Ítalíuheimsókn - Dagur VIb

Piemonte - Luciano Sandrone

Rúnturinn til Sandrone frá Amedei var lengri en ég gerði ráð fyrir og mættum við ekki fyrr en rétt undir 17.00 þrátt fyrir að hafa mælt okkur mót kl. 15.00. Það gerði þó ekkert til, Luciano og Barbara dóttir hans voru pollróleg yfir þessu.

Luciano Sandrone er stórgerður maður sem gerir fínleg vín. Barolo vínum er stundum líkt við Búrgúndí en mörg þeirra vína sem ég hef smakkað af nýja skólanum frá svæðinu eru þó mun kröftugri og karlmannlegri - væri frekar hægt að líkja þeim við Bordeaux. Barolo vínin frá Sandrone eru þó hins vegar hiklaust "Búrgúndí"... hann segir það sjálfur.

Fjölskyldan býr í sama húsi og víngerðin. Þetta er nýtt og afar glæsilegt hús sem er ekki beinlínis týpískt ítalskt heldur minnti mig einhverra hluta vegna frekar á Kaliforníuvínhús, nútímalegt en umfram allt fúnksjónalt... kannski áhrif frá S-Ítalíu eða Spáni.

Allavegana... þarna sameinast virðing fyrir hefðunum og nútímaleg hugsun sem hvergi annars staðar. Allt ferlið fer eftir þyngdarlögmálinu þ.e. þrúgunum er keyrt efst í húsið þar sem þær renna ofaní í gerjunartanka og þaðan á hæðina fyrir neðan í tunnurnar. Nýjasti hluti hússins var enn í byggingu og sáum við hvernig hvert herbergi er byggt innan í öðru stærra herbergi svo að bilið þar á milli veiti 100% jafna kælingu, eins konar hús í húsi. Frönsku barrique eikartunnurnar sem Sandrone notar eru svokallaðar No Toast þ.e.a.s. þær hafa ekkert verið ristaðar svo að vínin verði aldrei kaffærð í eik. Hann var eini framleiðandinn sem við hittum á þessu ferðalagi sem notar slíkar tunnur eingöngu... allir aðrir voru með Low Toast eða Medium Toast.

Síðan smökkuðum við með Luciano gegnum línuna og kvöddum með leiðbeiningar um góðan veitingastað, Le Torri í kastalaþorpinu Castiglione Falletto:

Antipasto:
(Arnar) La carne cruda e la salsiccia di Bra
(Rakel) Le verdure di mezza primavera ripiene e salsa al basilica

Primo Piatto:
(Arnar) I gnocchi di patate al castelmagno d'Alpeggio
(Rakel) I tajarin al ragú di salsiccia di Bra

Vín:
hvítvínið Langhe Bianco 2001 frá Scavino sem var einstaklega gott og ferskt með góða mýkt og fyllingu, bragðmikið með keim af smjöri, ananas, salvíu og kiwi m.a.

Maturinn var góður en ég verð að segja að hráa kjötið (cruda) sem ég fékk í forrétt var ekkert í líkingu við þunnt og elegant nautacarpaccióið á La Primavera heldur stærðar kjöthrúga sem leit út eins og búið væri að hvolfa úr nautahakkskjötpakka á disk og ... thats it ! Ég var eins og tryllt ljón að reyna að koma öllum þessu hráa kjöti oní mig. Þegar við báðum um reikninginn var okkur tjáð til óvæntrar ánægju að Luciano Sandrone hefði boðið okkur þessa máltíð.... af hverju hafði ég ekki pantað Barolo ?! urrr....

Hótelið var síðan lítið en stórglæsilegt fjölskylduhótel Casa Pavesi (Heimili Pavesi fjölskyldunnar) í kastalaþorpinu Grinzane Cavour en því miður gátum við lítið notið þægindanna og verandarinnar með útsýninu yfir Barolosveitirnar því við þurftum að vera í Alto Adige kl. 10.00 morguninn eftir... 5 klukkutíma í norðaustur.

Ítalíuheimsókn - Dagur VIa

Toskana - Amedei

Á leiðinni til Piemonte stoppuðum við í Amedei súkkulaðiverksmiðjunni. Þetta var stutt stopp enda við á leiðinni til Piemonte þar sem við þurftum að vera kl. 15.00. Amedei var alls ekki eins nálægt Pisa og ég hélt og við þurftum að hringlast á sveitavegum í dágóða stund áður en við renndum í hlaðið.

Við röbbuðum við tengilið minn Donato og eigandann Alessio Tessieri um Ísland og ísl. markað áður en við smökkuðum konfektmolana... síðan hittum við systur hans og meðeiganda Cecilia sem gerir uppskriftirnar og fórum með henni hraðferð um verksmiðjuna. Það er varla hægt að kalla þetta verksmiðju því þetta er ekki stærra en eins og eitt stykki rúmgott íslenskt bakarí með einungis 8 starfsmönnum yfir sumartímann en 30 í desember þegar mest er að gera. Þó er verið að stækka húsakynnin til að betur fari um framleiðsluna.

Amedei er ekki Valrhona. Báðir framleiðendur eru framúrskarandi en Amedei er lítið fjölskyldufyrirtæki og varan því fágætari og kannski persónulegri. Núna fæst Amedei hjá Fylgifiskum Suðurlandsbraut, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Yndisauka og hjá Ásgeiri Sandholt á Laugaveginum.

Ítalíuheimsókn - Dagur V

Toskana - Castello Di Querceto

Við höfðum komið fyrir nokkrum árum til Castello di Querceto og mundi ég því nokkurn veginn hvar hann var staðsettur, efst í hlíðunum austur af bænum Greve, umkringdur vínekrum og skóglendi. Nokkrum kílómetrum sunnar er Monte del Chianti, hæsti tindur Chianti Classico svæðisins í 950m hæð.

Í kastalanum búa eigendurnir Alessandro og Antonietta. Þau bera með sér öryggi og yfirvegun þeirra sem eiga ættir sínar að rekja meðal heldra fólks aftur í aldir en umfram allt óþvinguð, gestrisin og hlýleg. Þau voru eins og gamlir vinir þegar við kvöddum daginn eftir.

Þegar við komum ríkti sorg á bænum - refur hafði étið tvo kvenkyns páfugla og karlarnir tveir reikuðu vælandi kringum kastalann. Þessir tignarlegu fuglar pössuðu vel við umhverfið.

Hápunktur heimsóknarinnar, hugsanlega allrar ferðarinnar, var hádegisverður í kastalanum með hjónunum, uppkomnum börnum og mökum og tvennum öðrum hjónum sem eru góðvinir fjölskyldunar. Innan í litlum en heillandi kastalanum fengum við antipasti (crostini ýmis konar og ólífur) ásamt freyðivíni hússins áður en okkur var vísað til borðs. Félagsskapurinn var svo góður og notalegur að manni leið vel þrátt fyrir að hafa engan þeirra hitt áður. Maturinn var síðan framreiddur; aspasmús í forrétt, lasagna, villisvín, tiramisú og heimalagað konfekt með kaffinu. Tvær stúlkur starfa í eldhúsinu og maturinn var frábær. Með þessu voru drukkin einnarekrustórvínin Il Picchio Riserva, Il Querciolaia og Il Sole di Alessandro. Þau heilluðu mig upp úr skónum og get ég ekki beðið eftir að flytja þau inn. Í lokin komu Vin Santo, Brandy og tvær tegundir af grappa. Mér hefur sjaldan liðið eins vel í eins góðum félagsskap í eins fallegu umhverfi.

Síðan var rölt um kastalanna, vínekrur og víngerð - rætt og rabbað.

En veislan var ekki á enda. Skundað var á veitingastað í nágrenninu um kvöldið, borðað pasta og kjöt og eftirréttur. Ég náði ekki að klára neinn réttanna þrátt fyrir góðan vilja enda maginn ennþá að vinna á hádegisverðinum. Þar voru drukkin m.a. stórvínin La Corte og Cignale. Alessandro sagði okkur yfir matnum hvernig hann var uppgötvaður á veitingastað í Mílanó af amerískum heildsala sem keypti síðan upp alla framleiðslu kastalans.

Grái Benzinn hans Alessandro held ég að hafi ratað sjálfur til baka þessa 5km aftur til kastalans þar sem eftirminnilegum degi var lokið í eldhúsinu með tári af grappa og Brandy. Síðan var það beint í bólið í einu af fjölmörgum húsakynnum kastalans sem leigð eru til ferðamanna (agriturismo).

Mér fannst merkilegt hvernig karakter hjónanna endurspeglaðist í eftirminnilegum vínunum; aðgengileg en flókin, bragðmikil en silkimjúk, fáguð og í einstaklega góðu jafnvægi - framleidd af metnaði, virðingu og ástríðu.

Daginn eftir var svo ríkulegur hádegisverður í eldhúsi kastalans og sterkur espresso áður en við skunduðum af stað til að hitta Luciano Sandrone í Piemonte með viðkomu í súkkulaðiparadís Amedei.

Ítalíuheimsókn - Dagur IVb

Umbria - Falesco

Falesco er með vínekrur í bæði Umbria og Lazio og eru um 30km á milli þeirra. Rauðvínið vinsæla (og samnefnt hvítvín) Vitiano er gert í Umbria en stórvínið Montiano í Lazio. Falesco vill reyndar frekar byggja upp ímynd sína sem Umbria-framleiðandi og er að klára glæsilega byggingu í Umbria þangað sem skrifstofur og vínframleiðslan verða flutt.

Við mæltum okkur mót við Stefano kl. 15.00 við rætur Orvieto (afskaplega fallegur bær sem stendur efst á kletti með 360° útsýni og eina fegurstu dómkirkju ítalíu) en þurftum fyrst að taka krók í kringum bæinn þar sem aur hafði blokkerað aðalveginn. Síðan skunduðum við beint til Marciliano villunnar sem liggur mitt á landareigninni í Umbria og er Falesco nýfarinn að framleiða samnefnt vín úr 100% Cabernet Sauvignon sem hlotið hefur mjög góða dóma.

Eftir að hafa skoðað vínekrur og nýju víngerðina (tilb. í ágúst) sem var útbúin mjög tæknilegum gerjunartönkum þar sem hægt var að fínstilla á auðveldan hátt ferlið... fórum við aftur til Orvieto og fengum okkur snarl á vínbar við torgið og dáðumst að framhlið dómkirkjunnar. Drukkum Poggio Gelsi sem er nýtt vín úr Malvasia, Sauvignon Blanc og Moscadello og einstaklega ferskt og gott. Verður flutt inn !

Síðan var haldið aftur til Marciliano og borðaður þar margrétta kvöldverður sem Laura eldaði á staðnum. Stefano var yfir sig hrifinn en hvíta kjötið fannst okkur soldið þurrt eins og svo oft á Ítalíu. Drukkum hvítvínið Ferentano (frábært), Vitiano og stórvínin Montiano 2001 og Marciliano 2001. Marciliano er massíft en verður ennþá betra þegar það slítur barnskónum því vínviðurinn er enn mjög ungur.

Við hittum eigandann og einn frægasta vínmógúl á Ítalíu, Ricardo Coterella, og annan ekki síður frægan; Daniel Thomases sem gagnrýnir ítölsk vín fyrir Robert Parker. Þessir tveir menn hafa mikil völd í ítalskri vínmenningu.

Frábær heimsókn sem var toppuð með einstaklega ljúfum morgunverði daginn eftir á þaki villunnar með geysifögru útsýni... parmaskinka, jarðaber, sultur og brauð - allt framleitt á staðnum... já og sterkt kaffi "for the road". Hittum Domingu Cotarella, dóttir Riccardos, og var hún afar ljúf og skemmtileg.

Ítalíuheimsókn - Dagur IVa

Umbria - Arnaldo Caprai

Við komum til Caprai kl. 10.00 eftir 2.5 tíma keyrslu frá Ancona. Sól og blíða eins og var reyndar alla ferðina. Það var mikið um að vera hjá Caprai því á sunnudeginum eftir áttu þau von á 5.000 gestum í mikið húllumhæ sem haldið er einu sinni á ári og felst í göngutúr um vínekrurnar, vín og mat og tónlistarflutningi af ýmsu tagi. Þennan sunnudag er reyndar svokallaður Cantine Aperte dagur á Ítalíu þar sem fólk er hvatt til að heimsækja vínframleiðendur út um allt land en hjá Caprai er dagurinn sérstakur. Svo er líka verið að stækka húsið talsvert.

Roberta Cenci tók á móti okkur og leiddi okkur um nálægar vínekrur. Caprai er einhver flottasti framleiðandi Ítalíu þegar kemur að ekki bara gæðum heldur líka tilraunastarfssemi og rannsóknum á öllum mögulegum hlutum er varða vínrækt, ekki síst Sagrantino þrúgunni. Með stuttu millibili sá maður t.d. Sagrantino þrúgu sem hafði verið strengd upp á mism. hátt í mism. hæð, með mism. þéttleika og á mism. jarðvegi.

Síðan var kíkt á framleiðsluferlið og loks smakkað. 2002 var ekkert 25 Anni framleitt en í staðinn lítið magn af Collepiano. Collepiano 2002 var einfaldlega mjög gott og ekki mikið síðra en 2001 þótt stíllinn væri annar. Við smökkuðum öll vínin nema sætvínið sem var uppselt enda aðeins gert á nokkurra ára fresti, næst verður það 2003 árg. og kemur hann á markað 2006... það verður eitthvað magnað. Einu sinni voru öll Sagrantino vín sæt og var það með tilkomu Caprai sem fyrstu þurru vínin litu ljós svo um munaði.

Hittum Marco Caprai og gáfum honum bók um Ísland.

Caprai er frumlegur hvað markaðssetningu varðar. Vefsíðan er í meira lagi sérstök og svo gefa þau út bæklinga og bréf af ýmsu tagi t.d. mjög skemmtilegt dagblað sem inniheldur ýmsan fróðleik og greinar er tengjast framleiðandanum.

Eftir heimsóknina kíktum við í nágrannabæinn Bevagna sem er mjög fallegur og vel varðveittur og nörtuðum í samlokur áður en haldið var lengra.

föstudagur, júní 03, 2005

Ítalíuheimsókn - Dagur III

Le Marche – Umani Ronchi

Við ákváðum að eyða heilum degi með Umani Ronchi enda höfðum við aldrei komið áður til Ancona og Umani Ronchi einn okkar mikilvægasti viðskipavinur. Grand Hotel Palace er við höfnina og sótti Gianpiero okkur þangað kl. 9.30 þaðan sem leiðin lá til vínekranna í Castelli di Jesi þar sem Umani Ronchi framleiðir Verdicchio hvítvínin sín, m.a. Casal di Serra. Hittum þar yfirmann vínræktarinnar (agranomista) Luigi Piersanti og hann fór með okkur í bíltúr þar sem við urðum m.a. vitni að fyrstu blómunum springa út þennan dag 24.maí – af Chardonnay-kyni, Verdicchio springur út síðar.

Hádegisverður samanstóð af trittico á veitingastaðnum Il Maresciallo (Marskálkurinn) en það eru þrír pastaréttir hver á eftir öðrum a) ravioli burro salvia b) tortellini al ragú c) tagliatelle all’anatra (önd)… úff ! Bara drukkið gosvatn enda vínsmökkun framundan. Veitingastaðurinn var stór og bjartur en andrúmsloftið var dæmigert cucina casalinga - eins konar framlengin á eldhúsi fjölskyldunnar sem bjó í sama húsi... enginn matseðill.

Fórum síðan í höfuðstöðvarnar þar sem eru skrifstofur, vínframleiðsla og lager. Þar hittum við eigandanna Dr. Massimo Bernetti. Umani Ronchi er nýbúinn að byggja Cantinu sem hýsir um 500 eikartunnur (aðrar 500 eru geymdar annars staðar) og er hún nútímalega hönnuð flott með fullkomnu kælikerfi – var fjallað um hana í tímaritinu Architectural Digest. Þar smökkuðum við okkur í gegnum nokkur vínanna og komu tvö vín sérstaklega skemmtilega á óvart; Montepulciano d’Abruzzo (U.R. framleiðir langmest af þessu basic-víni eða 2.000.000 fl., um helmingur heildarframleiðslunnar) og Lacrima di Morro d’Alba sem er sjaldgæft og ilmríkt rauðvín er minnir á Moscato. Drukkum líka 2001 Cumaro sem var einstaklega flott. Einnig var ég hrifinn af ódýru hvítvínunum. 2004 er málið. Dr. Bernetti kíkti svo á okkur og sötraði hvítvín meðan við smökkuðum og spjölluðum.

Um kvöldið kíktu Michele Bernetti, framkvæmdastjóri og sonur Massimo, og Gianpiero til okkar á hótelið til að kasta á okkur kveðju áður en við vorum keyrð á veitingastaðin Da Emilia í litlu sjávarþorpi, Portonovo, um 15 mín suður af Ancona þar sem okkur var boðið upp á endalaust mikið af mismunandi matreiddum fiski skoluðum niður með Casal di Serra 2003… og súkkulaðikaka með heimalöguðum myntuís á eftir. Enginn matseðill var á staðnum og létum við valið alfarið í hendurnar á mjóa og gamla þjóninum (eigandi ?) sem hljóp á milli borða eins og hann ætti lífið að leysa… eina skiptið sem ég sá hann hægja á sér var þegar hann skammtaði okkur skelfiskspagettíið af mikilli nákvæmni og alúð.

Við fengum einstaklega góðar og vinalegar móttökur hjá Umani Ronchi og áttum þar stórkostlegan dag.

Ítalíuheimsókn - Dagur IIb

Toskana - Rietine

Kl. 15.00 mættum við til Rietine og hittum Galinu og Mario sem voru eigendur Michelin veitingastaðar í Sviss áður en þau söðluðu um og létu víngerðardrauminn rætast.

Við stoppuðum stutt enda förinni heitið til Ancona um kvöldið en í næstu heimsókn ætlar Galina að bjóða okkur gistingu og elda fyrir okkur dúfur.

Hápunktur heimsóknarinnar var að smakka nýjan árgang af súpertoskanavíninu Tiziano, 1999. Tiziano 1997 hef ég þegar flutt inn (nokkrar fl. eftir), þetta er einstakt og sjaldgæft vín sem hefur 50/50 Merlot/Lambrusco ! Lambrusco þrúgan var þegar til staðar er hjónin keyptu Rietine og ákváðu þau að halda henni. Tiziano 1999 hefur reyndar minna Lambrusco en Galinu langar helst að gera 100% Merlot. Vonandi gerist það aldrei því Tiziano er einstakt... sem betur fer er Mario sammála mér. Spurning hver ræður hins vegar.

Það er engin yfirborðsmennska hjá Rietine, bara ástríða og löngunin til að búa til góð vín. Mjög "hand made" allt saman - á haustin er safnað saman ellilífeyrisþegum af nærliggjandi bæjum til að týna þrúgurnar af þeirri reynslu og alúð sem þeim er lagið.

...

Síðan keyrt í 3.5 tíma til Ancona, hafnarborgarinnar í Le Marche héraðinu, tékkað inn á Grand Palace og borðað frutti di mare og pizzur á veitingastaðnum við hliðiná. Skemmtilegt hvítvín drukkið með: Bucci - Verdicchio di Matellica.

Ítalíuheimsókn - Dagur IIa

Toskana - Fontodi

Ívar á La Primavera var búinn að segja mér frá heimsókn sinni til Fontodi síðastliðið haust ásamt Leifi og Jamie Oliver og lýsa yfir aðdáun sinni á bæði vínum og víngerð. Ég hafði oft smakkað vínin áður og keyrt um sveitirnar í kring en aldrei heimsótt framleiðandann sjálfan. Ívar hafði rétt fyrir sér.

Fontodi er 100% lífrænn framleiðandi þótt það komi aðeins fram á ólífuolíunni þeirra. Sjálfsþurftarbúskapur er hugsjón, t.d. eru nautgripir ræktaðir neðst í dalnum þar sem vínviður dafnar illa - til að metta eigendur og starfsfólk og til að búa til náttúrulegan áburð.

Conca d'Oro (gulldalur) er heitið á skál-laga hlíðunum er teygja sig suður af bænum Panzano og er eitt besta "cru" Chianti Classico. Giovanni Manetti benti í áttina að dalnum... allar vínekrurnar þar voru hans fyrir utan lítið frímerki neðst í dalnum sem tilheyrir hinum góða Rampolla.

Til að forðast að þvinga vínið áfram með slöngum og dælum þegar vínið er búið til byggir ný og glæsileg víngerð Fontodis á þriggja hæða þyngdarlögmálskerfi. Þrúgunum er hellt inn efst, gerjaðar á hæðinni fyrir neðan og renna svo niður í kjallarann þar sem þær eru settar á eikartunnur.

Við smökkuðum m.a. Flaccianello 2004 (100% Sangiovese) úr tunnu, tveimur tunnum réttara sagt - báðar voru nýjar, franskar "barrique" eikartunnur en önnur var meðalristuð og hin ekkert ristuð. Gaman að finna hversu mikill munur var á sama víninum úr sitt hvorri tunnunni og sýnir það hversu stóra rullu tunnan spilar í að móta karakter vínsins.

Og hvað þýðir Fontodi ?

Font = gosbrunnur, odi = Óðinn, m.ö.o. Gosbrunnur Óðins ... já, forfeður okkar fóru víða.

Giovanni þurfti að keyra 10 tíma til Vínar þar sem Vínsambandið í Chianti Classico var með kynningu en sendi okkur Rakel í hádegismat, í boði hússins, á virkilega góðan veitingastað í grenndinni; Locanda Pietracupa.

Antipasto:
- Rakel; Sformato di carciofi (þistilhjörtumús) con salsa al burro (smjörsósa)
- Arnar; Millefoglie di Pate di fegatine al vinsanto con gelatine (útfærsla á crostini toscani þ.e. brauð með kjúklingalifrapate)

Primo:
- Rakel; Tagliolini (pasta) ai fiori di zucca (kúrbítsblóm) e tartufo
- Arnar; Piccione (dúfa) con vinaigrette tartufate (trufluediksósa)

Vín:
- hvítvínið Palagetto - San Gimignano... ferskt og gott en bara eitt glas enda keyrsla og meira smakk framundan...

fimmtudagur, júní 02, 2005

Ítalíuheimsókn - Dagur I

Pitstop í Modena

Við vöknuðum kl. 4.00 til að koma okkur í vélina til London Heathrow og flugum svo þaðan til Mílanó Malpensa. Bíllinn, Ford Focus, var ekki með geislaspilara eins og ég hafði beðið um en löngunin til að komast á næsta áfangastað var svo sterk að ég nennti ekki að labba aftur (var búinn að gera það þegar einu sinni til að minnast á rispu sem var á bílnum) 500m inn í flugstöðina, skipta um bíl etc. Átti eftir að sjá aðeins eftir því síðar þegar ég skrollaði gegnum milljón ítalskar útvarpsstöðvar á hraðbrautinni sem allar hljómuðu eins.

Stoppuðum í Modena til að sofa og borða. Hótelið, Geminiano, var miðsvæðis svo við gætum rölt um miðbæ borgarinnar og fundið notalegan veitingastað. Ekkert sérstakt hótel enda hugsað sem pitstop - komst hins vegar að því síðar í ferðinni að fyrir aðeins meiri pening er hægt að kaupa t.d. ódýrt herbergi á lúxushóteli... mæli með því.

Modena er heillandi borg, svona mini-útgáfa af Bologna með yfirbyggðum gangstéttum (húsin eru studd með súlum við götuna þar sem gangstéttargöng myndast undir) og ferskjulituðum húsum. Lífsgæðin á þessu svæði eru mikil, Ferraribílar og Balsamikedik koma frá Modena, og Parmaskinka, Parmaostur, Lamborghini og Barillapasta ekki langt undan.

Við borðuðum á aðaltorgi borgarinnar með hina mögnuðu dómkirkju í bakgrunni. Værðin var rofin öðru hvoru af einsgírahjólum og barnavögnum sem skröltu yfir steinótt torgið. Hvenær fara börn eiginlega að sofa í þessari borg ?

Ég finn ekki nafnið á veitingastaðnum né heldur nöfnin á réttunum sem ég hafði skrifað niður en maturinn var góður á þessum eina veitingastað við aðaltorgið og með honum var að sjálfsögðu drukkið þurrt en freyðandi Lambrusco di Sorbara.

Ítalíuheimsókn

Þá er maður nýkominn úr vínferð til Ítalíu þar sem maður þrældi sér út við át og drykkju... og keyrslu. Eknir voru um 2000 kólómetrar á 8 dögum - Mílanó, Toskana, Le Marche, Umbria, Toskana aftur, Piemonte, Alto Adige, Trentino og loks aftur í Mílanó.

Hvað græddi maður svo á þessu ? Jú, kynnast betur þeim framleiðendum sem Vín & Matur flytur nú þegar inn en ekki síst skoða vínekrur og aðstæður, smakka ný vín og gömul og spyrja helling af spurningum... og svara helling af spurningum um Ísland.

Nokkur atriði komu oft upp:
- 2004 verður frábær árgangur. Veðurfar var svona hvorki of né van og þroskunarferli þrúgunnar frá blómi til bers fremur hægt og langt og því gæðin betri (heldur en þegar hratt og stutt eins og 2003 þegar of heitt var í veðri).
- 2003 var yfirleitt gott en samt stundum of heitt. Þrúgurnar voru komnar með nægilegt sykurmagn áður en þær voru nægilega þroskaðar og það gerði framleiðendum erfitt að finna hvenær væri heppilegast að týna. Of löng bið gat leitt til of mikils sykur/alkóhóls.
- 2002 var erfitt ár vegna rigninga og kulda m.a., sumir framleiddu engin toppvín það ár en þó er þetta aðeins misjafnt eftir svæðum - t.d. var árið gott í Alto Adige
- Túrismi hefur dalað og eftirspurn eftir vínum minnkað.
- Evran hefur leitt til hærra verðs á vínum og veitingastöðum. Það sem kostaði áður 7000L (320kr) kostar nú 7E (560kr).