mánudagur, apríl 25, 2005

Basilikutómatapasta - uppskrift

Pasta della casa.

Þetta er sannkallaður réttur hússins á mínum bæ, einfaldur og ferskur. Flest ítölsk hvítvín henta vel þótt það sé óþarfi að vera með einhverja bolta með þessu... en ítölsk hvítvín eru það reyndar yfirleitt aldrei hvort sem er. Einnig ung, létt og sýrurík rauðvín - ekki tannísk. Þegar ég hafði hann um helgina drukkum við reyndar 2002 Von der Fels frá Weingut Keller sem er trocken (þurrt) útgáfa af Riesling þrúgunni - vottar af sætu í nefi og eftirbragði en er þó þurrt og mjög ferskt (freyðir örlítið í glasinu).

500gr spagettí
10 meðalstórir tómatar (þroskaðir)
1 basilikuplanta eða svo
ca. 150gr ostur (eftir smekk)
5 hvítlauksrif (eftir smekk)
2msk salt og pipar (já, slatti af hvorutveggja)
1 dl ólífuolía

Setja olíuna í skál og saxa hvítlaukinn, basilikuna, tómatana og ostinn útí - í þessari röð. Salta og pipra og hella yfir soðið pastað. Tilbúið !

Við notum oftast einhvern heimilisost t.d. gouda því hann er bragðmikill en ef notaður er mozzarella, sem væri týpískast og hugsanlega best, þá þarf að salta enn meira.

þeir sem vilja drekka Keller "Von der Fels" með þessum rétti verða þó að tala við mig því vínið fæst ekki lengur í Vínbúðunum vinogmatur@internet.is.

föstudagur, apríl 22, 2005

Austurrísk vín

Ég hef verið að smakka vín frá nokkrum austurrískum framleiðendum. Austurríki er aðallega þekkt fyrir hvítvín og sætvín en það kom mér verulega á óvart hversu skemmtileg rauðvínin eru. Úr rauðu þrúgunum Zweigelt og St. Laurent gera þeir mjúk og bragðmikil vín - svolítið nýjaheimsleg. Sérstaklega var ég hrifinn af Zweigelt vínum frá Huber. Þau ættu að falla vel að smekk mjög margra vínunnenda, líka kröfuharðra, og eru frábær kaup, ódýr hreinlega. En... ætli íslenskir vínunnendur gætu nokkuð tímann trúað því að vín frá Austurríki, með ljótan miða í þokkabót, sé svona gott - og aðgengilegt.

Ég hef ekki alveg þróað smekk fyrir Gruner Veltliner, hvítvínsþrúgunni, enda alveg óvanur henni - þótt verð ég að viðurkenna að ég er farinn að hlakka til að prófa hana aftur.

Í gær drakk ég hins vegar gjörsamlega dásamlegt vín frá Polz bræðrum, Hochgrassnitzberg Sauvignon Blanc 2002. Ilmurinn var aðeins daufur þótt hann væri heillandi en í munni var mikil fylling, flókinn keimur af alls kyns ávöxtum og örlítill eikarblær. Allir við borðið voru gagnteknir og einhver sagði "besta hvítvín sem ég hef drukkið". Með betri hvítvínum sem ÉG hef drukkið, einstaklega ljúft og heillandi.

Drukkum líka Zantho St. Laurent 2003. Zantho er í eigu tveggja framúrskarandi framleiðanda, Numathum og Peck, og framleiðir eingöngu rauðvín. Þetta vín var mjög gott, mjúkt og þægilegt, ekki tannískt. Það er ekki stórt um sig en sannarlega góð kaup.

laugardagur, apríl 16, 2005

Fois Gras

= feit lifur.

Gæsalifur er að verða fátíðari á borðum betri veitingahúsa vegna vaxandi andúðar á troðsluaðferðinni frægu sem felst í því að þvinga fæðu oní gæsirnar (eða endurnar) til að auka vöxt lifrinnar.

Á www.decanter.com las ég frétt þar sem stjörnukokkurinn Charlie Trotter lýsir því yfir að hann sé hættur að bera góðgætið á borð.

Aðrir eru ekki á þeim buxunum að gefa lifrina upp á bátinn: "it is just to good" segir Raymond Blanc, kokkur á Manoir aux Quats Saisons.

Verð að viðurkenna að ég velti ekki mikið vöngum yfir þessu í lifrasælunni á Club Garcon í London. Betra væri samt ef menn gætu framleitt þetta á náttúrulegan hátt, án troðslunnar - hún verður þá bara minni... og maður borðar fleiri.

... sem hlýtur að þýða að fleiri gæsum verður slátrað !?

sunnudagur, apríl 10, 2005

Michael Jackson elskar bjór

Michael Jackson er poppstjarna. Fáir vita hins vegar að hann er líka bjórsérfræðingur og hefur gefið út bókina The Beer Companion.

Ég slysaðist á vefsíðu hans um daginn og rakst á áhugaverða grein. Í greininni fjallar hann um hóp belgískra bjórframleiðanda sem rúlluðu yfir til Frakklands og mótmæltu nýjum skatti á bjór með yfir 8.5% alkóhól.

Ástæðan er forvarnarstarf - hærri skattur á alkóhólríkum bjór þýðir minni hættu á ofdrykkju (hvar hef ég heyrt þessi rök áður ?). ... ekki eins og Frakkarnir væru vanir að sturta slíkum bjór í sig heldur er það mjög lítill hópur sem neytir þessa ofurbjórs og þá oftast í litlu magni. Svo eru Frakkarnir líka vanari öðrum drykk sem þeir framleiða sjálfir og er talsvert áfengisríkari... léttvín!

Hið kaldhæðnislega við þetta allt saman er að flestur belgískur bjór er framleiddur úr hveiti sem ræktað er í Frakklandi.

föstudagur, apríl 01, 2005

Vín í leikskólana

Hvernig myndu íslenskir foreldrar bregðast við ef ég mælti með því að íslensk börn ættu að kynnast helstu þáttum vínframleiðslunnar strax á leikskólaaldri ?

Það er hefð fyrir því á Ítalíu að gefa börnum að drekka léttvín sem hefur verið þynnt út með vatni... "Svona Gréta mín, drekktu nú úr glasinu þínu !"... en að bókstaflega framleiða það í leikskólanum er kannski full langt gengið - eða hvað ?

Ég var nefnilega að rifja upp í gær þegar dóttir mín var í leikskóla í Chiesanova, litlu þorpi 10 km suður af Flórens. Eitt af praktískum verkefnum barnanna var einmitt að framleiða vín ! Haldið var í vísindaferð til næsta vínbónda (100 m) þar sem þau týndu þrúgurnar, pressuðu þær og fengu síðan flösku til að taka með sér heim þegar vínið var tilbúið einhverjum mánuðum síðar.

Flaskan var reyndar fyrir mömmu og pabba.

Að sjálfsögðu er ennþá stór menningarleg gjá milli Íslands og Ítalíu þegar kemur að léttvínsneyslu - vín er þar bara daglegt brauð og ekkert sjálfsagðara en að börnin kynnist helsta iðnaði svæðisins með þessum hætti.