föstudagur, mars 25, 2005

Mondovino

Get varla beðið eftir að sjá þessa mynd.

Jonathan Nossiter er greinilega hugsjónamaður af hæstu sort en hvort hann er það af bestu sort læt ég bíða með að segja þar til ég er búinn að sjá myndina.

Áhyggjur Jonathans beinast m.a. gegn markaðshyggjunni:

" the move towards the crypto-fascism of marketing and the oligopolistic control of production and distribution. The great lie of our time is to fabricate products with different surfaces, but where the content is unvarying. That's happening both in the wine world and the film world."

Hóruvín...... kallar Nossiter þessi vín sem eru einsleit, skortir karakter - eru eins (fyrir utan umbúðirnar) sama hvar og hver framleiðir þau. Sjálfur segist hann vera "terroir"-isti, að hlutverk víngerðarmannsins sé að miðla uppruna vínsins, þ.e. terroir, til neytandans en ekki hans eigin sjálfi.

Verður líka fróðlegt að sjá hvernig Nossiter tekur á Robert Parker.

Það er freistandi að rýna frekar í sumt af því sem Nossiter segir í greininni en ætli það sé ekki betra að sjá myndina fyrst....

laugardagur, mars 19, 2005

Open That Bottle Night

Wall Street Journal heldur OTBN (open that bottle night) á hverju ári. Þá hvetur blaðið alla þá sem hafa verið að lúra á einhverju fágætu víni að drífa sig í að taka það upp og deila síðan reynslunni með lesendum.

Þessi saga fannst mér fyndin:

About 40 years ago, R.M. Shepard of Tulsa, Okla., bought a case of 1961 Lafite Rothschild for $18 a bottle. This turned out to be one of the greatest wines of the century -- and the price rose so high that Mr. Shepard couldn't stand to open the last bottles. "My dearest friend hectored me many times to open a bottle. One night, after again fruitlessly importuning me, he asked in exasperation, 'Are you going to die with that wine unopened?' My response was that I was going to have it poured over my grave. In a flash he responded, 'You won't mind if we pass it through our kidneys first?' I eventually relented and we shared a bottle."

Vínið reyndist svo vera komið af besta skeiðinu sem sýnir okkur að það borgar sig ekki að taka of miklu ástfóstri við vínflöskur - vín skal drekkast. Tilgangurinn með söfnuninni öðlast þannig ekki fullkomið gildi fyrr en safngripnum er tortímt.

Ég legg mitt af mörkunum til vínsöfnunar - ég er ávallt reiðubúinn til að farga safnkosti annarra.

mánudagur, mars 14, 2005

Chateau Ducru-Beaucaillou 1997

Robert Parker gefur þessu víni 87 stig. 87 af 100 mögulegum er góð einkunn miðað við það svigrúm sem einkunnagjafinn þarf að hafa til að gefa hærri einkunn til enn betri vína og þau eru vissulega mörg góð í Bordeaux.

En Parker gefur einkunnir sínar ekki út frá heildargæðum ákveðinna svæða heldur á heimsvísu, þ.e.a.s. 87 fyrir Bordeaux er "eins" góð einkunn og 87 fyrir merlot frá Chile... og... miðað við hversu margar slíkar einkunnir hann gefur finnst mér 87 ekki sýna hversu mikið býr í þessu víni.

Chateau Ducru Beaucaillou er eitt besta slottið í St. Julien í Bordeaux og 1997 staðfestir hversu frábær vín frábærir framleiðendur geta gert í jafnvel erfiðustu árgöngum. Vínið heillar mann upp úr skónum, er fremur létt og kvenlegt, silkimjúkt með flókinni angan af m.a. rauðum berjum. Vissulega ekki þungavigtar Bordeaux en gæði eru ekki alltaf mæld í vigt.

mánudagur, mars 07, 2005

Dagdraumar vínheildsalans

Var í dag með kynningu fyrir Vox á Nordica. Valdi 8 vín frá 8 ólíkum ítölskum framleiðendum. Sævar yfirþjónn á Grillinu mætti líka.

Ég held að þeim hafi þótt vínin góð en það er erfitt að segja. Þessi veitingastaðamarkaður er erfiður...

... mig dreymir um þann dag þegar einhver veitingastaðurinn hringir í MIG og biður um að fá að kaupa eitthvað hjá mér...: "ég las frábæra dóma um þetta vín í erlendu pressunni, komst að því að þú flytur það inn og bara verð að fá að kaupa það hjá þér !" ... that will be the day.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Gordon Ramsey - Boxwood Café

Boxwood Café er þriðji veitingastaður stjörnukokksins Gordon Ramsey. Hann opnaði fyrir tveimur árum og er í hjarta borgarinnar á Knightsbrigde - 100m frá Harvey Nichols. Hann er hluti Berkeley hótelsins en hefur sérinngang.

Ég pantaði borð síðastliðinn sunnudag fyrir mömmu og systur mínar tvær sem voru í London að halda upp á 60 ára afmæli mömmu og kom þeim svo á óvart með því að skutlast til London og mæta sjálfur í boðið.

Boxwood er fallega hannaður, nútímalegur en hlýlegur og tekur yfir 100 manns í sæti. Maturinn var í alla staði vel heppnaður en ekki beinlínis ævintýralegur heldur frekar heimilislegur - svona eins og í mjög góðu íslensku matarboði. Á hádegismatseðlinum voru líka eins ólíkir réttir og gnocchi og skosk hálandasteik þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Margt mjög gott en ekki alveg frábært - 20 pund fyrir þrjá rétti í hádeginu var virkilega gott verð og voru réttirnir vel út látnir.

Vínlistinn var ekki of langur en vínin mjög vel valin. Hægt er að fá sérstakan reserve vínlista með nokkrum stórvínum. Þeir sem vilja hins vegar sjá dýrðina í öllu sínu veldi ættu að kíkja á vínlista hinna veitingastaða Gordons Ramsay; michelinstjörnustaðinn Claridge´s
og þriggjamichelinstjörnustaðinn (aðeins 3 slíkir í Englandi) Royal Hospital Road.

Alveg rétt... við drukkum Henriot kampavín með matnum og 2001 rósavín frá Tempier í Bandol. Henriot var mjög gott, þurrt en ávaxtaríkt og rósavínið það besta sem ég hef drukkið af því kyni "so far".