miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Vefsíða Víns & Matar

Já, hönnun vefsíðu Víns & Matar stendur yfir og held ég að megi lofa henni með vorinu. Loksins segja vínunnendur um land allt, það var kominn tími til.

Þarna verður hægt að nálgast allar upplýsingar um framleiðendur og sitt hvað fleira. Hún verður basic, það er ljóst, enda ekki offramboð af hönnunarhæfileikum á þeim bænum. Það er enginn skortur af vilja hins vegar.

En, það er innihaldið sem gerir vínin góð.

Segjum það.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Chateau Elvis

"Which celebrities make the best wine"

Skondin grein eftir Mike Steinberger í The Slate um heimsfrægar stjörnur í víngerðarstellingum.

Önnur grein eftir sama mann í sama blaði fjallar um hvernig vín og matur hafa færst í sundur síðustu misseri og nefnir t.d. áströlsk ofur-shiraz - hann segir um þau m.a. "These wines aren't fit to accompany meals—they are meals" ! Dæmi um mat sem er álíka út úr kortinu hvað varðar hæfni til að fara vel með víni að hans mati er Parmesanostaíssamloka !!

Skemmtilegur penni en ég held þetta séu óþarfa áhyggjur - nýir réttir og ný vín kalla bara á nýjar samsetningar. Þetta er bara spurning um að hafa rétt jafnvægi t.d. hvað varðar magn vínsins eða matarins o.s.frv. Jamm.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Vínsmakk í hvert hús !!!

Átak í vínsmökkunum á vegum Víns og Matar stendur nú yfir. Í vikunni var t.d. kynning á stórvínum frá Ástralíu og Ítalíu í Ostabúðinni á Skólavörðustíg. Þeir sem hafa áhuga á slíku ættu að hafa samband við mig - hægt er að halda smakk fyrir svona 15 manna hópa í Ostabúðinni, í heimahúsi eða jafnvel í fyrirtækjum í lok vinnudags. Ég fjárfesti um daginn í 48 Riedel-glösum í þessum tilgangi.

Þessar smakkanir eru ódýr leið fyrir fólk að kynnast mörgum vínum með því að deila kostnaðinum á sem flesta. Ef haldið í fyrirtækjum með fyrirlestraraðstöðu má varpa myndum og vefsíðum framleiðanda samhliða smakki.

Eða eins og einn ónefndur framleiðandi frá Ítalíu kvaddi mig í bréfi í vikunni:

"Waiting to meet you or to read you ........."

laugardagur, febrúar 12, 2005

Sandholt - Amedei

Kíkti til Ásgeirs Sandholt á Laugaveginum í dag og leyfði honum að smakka konfekt sem ég hafði sjálfur búið til úr Amedei súkkulaði. Ásgeir var að búa til eftirrétti fyrir brúðkaupsveislu sem hann leyfði mér að prófa. Greinilegt að hann er mikill ástríðumaður því hráefnið var m.a. grænustu pistasíuhnetur (4.000 kg kílóið) og mýkstu vanillustangir (17.000 kr ca. 250 gr) sem ég hef séð - og útkoman eftir því.

Innan skamms verður hægt að fá Amedei súkkulaði í verslun hans á Laugaveginum. Þá verður hann líka með 1kg plötur frá Amedei sem fólk getur beðið um að fá bita af til að nota í matargerð - það er ódýrara heldur en að kaupa neytendapakkningarnar og hentugra en að kaupa heila 1kg plötu þar sem fæstir nota svo mikið magn í einu holli.

Það er þó lygilegt hvað ein 1kg plata getur verið fljót að fara á heimili þar sem búa margir súkkulaðifíklar.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Weingut Keller

Vínin frá Keller hafa selst frekar lítið í Vínbúðunum þrátt fyrir að hann sé í framlínu þýskra víngerðarmanna. Markaðurinn hér heima er einfaldlega ekki tilbúinn að greiða 2-3 þúsund krónur fyrir sætt hvítvín frá Þýskalandi. Þess má geta að í nóvembermánuði seldust 1445 fl. af Gunthrum Riesling Royal Blue (790 kr) í Vínbúðum - af Keller Dalsheimer Spatlese (1.790 kr) seldist ein flaska.

En... Keller-vínin eiga rétt á því að vera hluti af vínframboðinu fyrir þá sem vilja kynnast einmitt því besta frá Þýskalandi. Í stað þeirra fjögurra Keller vína sem byrjuðu fyrir tæpu ári og detta úr sölu fljótlega munu því ný taka við síðar á þessu ári.

Ábending til þeirra sem eiga hjá sér Keller vín. Spatlese 2002 og Auslese 2002 eru byrjuðu að lokast og ef þau verða ekki drukkin fljótlega þarf að bíða í einhver ár þar til þau blómstra á ný. Klaus Keller sagði mér sjálfur að hann kynni að meta vín sín best mjög ung eða ekki fyrr en eftir 10 ár.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Australian Day Tasting

Hitti Dan Standish víngerðarmann Torbreck á ADT í London í síðustu viku. Hann lýsti yfir miklum áhuga sínum að koma til Íslands í næstu heimsreisu sinni og halda kynningu á Torbreck vínum.... ætli það sé kvenfólkið ? Allavegana, verður frábært tækifæri til þess að kynnast innviðum hágæðavíngerðar frá þeim manni sem stendur henni næst.

Dan sagði mér líka að 2004 yrði einn besti árgangur S-Ástralíu "ever", betri en bæði 1998 og 2002 sem þóttu framúrskarandi - svokallaðir "benchmark"-árgangar. 2005 verður tíndur á næstu vikum.

Dan virtist ánægður með okkur vitleysingana frá Íslandi því hann vildi kíkja í bjór eftir sýningu en því miður urðum við að afþakka og taka bjórinn okkar á Stanstead - eða öllu heldur á nýja hótelinu við flugvöllinn... sem betur fer því Stanstead er gjörsamlega glataður.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

1952 Chateau Pichon-Longueville-Comtesse de Lalande

Liturinn kom mér á óvart - hann var hvorki eins fölur né eins brúnleitur og ég hafði ímyndað mér, þó mátti greina ryðrauðan blæ.

Tappinn var gegnsósa og vel myglaður ofan á. Í nefi mátti vel greina þessa myglu - gömul lykt t.d. gamlar bækur og rykug húsgögn, jafnvel óhreinir sokkar en... fínlegan blæ af berjum inn á milli.

Í munni reyndust mestu vonbrigðin - var þunnt, eiginlega vatnskennt.

Mjög áhugavert að smakka þetta vín, eldurinn var slokknaður en það lifir í glæðunum.