föstudagur, nóvember 26, 2004

Besta vín Ítalíu 2005

Síðastliðinn mánudag tilkynntu gagnrýnendur allra helstu "vínbiblía" Ítalíu (Gambero Rosso, Veronelli, Associazione Sommelier, Luca Maroni og L'Espresso) að þeir hefðu komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvað væri besta vín Ítalíu. Niðurstaðan var...

...Arnaldo Caprai - 25 Anni 2001 Sagrantino Di Montefalco.

Og að sjálfsögðu flytjum við hjá Víni & mat þetta vín inn til landsins. Stutt er síðan 2000 árgangurinn seldist upp samstundis þegar hann var auglýstur á póstlistanum. Árgangurinn 2001 er væntanlegur fljótlega á næsta ári og ekkert er því til fyrirstöðu að áhugasamir vínkaupendur hafi samband strax til að láta taka frá fyrir sig nokkrar flöskur af besta víni á Ítalíu árið 2005 -- netfangið er vinogmatur@internet.is.

Og verðið: eitthvað um það bil 6.500 kr, eða svona eins og út að borða - fyrir einn!

Best og ekki best

Á vínsmökkun á Hótel Nordica síðustu helgi smakkaði ég rauðvín frá Chile sem fullyrt var að þetta væri besta Merlot-vín í heimi. Þessi fullyrðing var byggð á niðurstöðu úr International Wine and Spirit Competition, sem jafnframt var fullyrt að væri besta vínkeppni í heimi.

Vínið -- sem selt er í Vínbúðum á 1.990 kr -- var sannarlega alveg prýðilegt en ég komst ekki hjá því að álykta að mörgum góðum Merlot-framleiðendum hefði láðst að senda vín inn í keppnina. Í þessari keppni er nefnilega einungis valið úr takmörkuðum hópi vína sem eru send í keppnina af framleiðendunum sjálfum. Keppnin gefur því enga mynd af heiminum öllum.

Árlega gefur tímaritið Wine Spectator út lista yfir 100 bestu vín ársins sem meira mark er á takandi. Hins vegar er sá listi líka takmarkaður, af þremur ástæðum: Til að komast inn á listann þarf vínið helst að vera í góðri dreifingu í Bandaríkjunum; dýr vín eiga minni möguleika á að komast á listann en þau sem teljast "góð kaup"; og loks nær listinn nánast einungis til vína sem vínrýnar blaðsins hafa gagnrýnt það árið. Semsagt, góður listi en ekki endilega viðmiðun þegar leita á að því besta.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Meira um smekk Roberts Parker

Quel scandale!

Margir, ekki bara Frakkar, furðuðu sig á því að þegar farið var yfir einkunnagjöf Roberts Parker fyrir 2000 árganginn kom í ljós að hann veitti fleiri áströlskum vínum framúrskarandi einkunn en vínum frá Bordeaux, en 2000 árgangurinn er talinn vera einn sá besti frá upphafi. Þannig fengu hvorki meira né minna en 111 áströlsk vín einkunnina 95 og yfir en einungis 44 Bordeaux vín náðu svo góðum árangri.

En þótt Bordeaux sé elsta, virtasta og hugsanlega besta vínsvæði veraldar verður að benda á tvennt: Í fyrsta lagi er verið að bera saman vínframleiðslu heillar þjóðar við tiltölulega lítið svæði í öðru landi. Í öðru lagi gera flestir gæðaframleiðendur í Ástralíu fjölmörg hágæðavín í afar litlu upplagi, meðan framleiðendur í Bordeaux einbeita sér að einu stórvíni og þá í talsvert góðu upplagi — margfalt stærra en hefðbundnu gæðavínin frá Ástralíu. Í lítrum talið á Bordeaux ennþá vinninginn í flokki vína með yfir 95 stig á Parker-skalanum.

Engu að síður endurspeglar niðurstaðan mikla sókn Ástralanna upp á stjörnuhiminn vínsins.

Stundum finnst manni eitthvert vín eiga að fá hærri eða lægri einkunn en um það snýst líka þessi áhugaverði heimur vínsins...forvitni og opið hugarfar - nauðsynlegt, fróðleikur - gagnlegur, en umfram allt.... smekkur hvers og eins. Smekkur Parkers er, þegar öllu er á botninn hvolft, hans eigin persónulega skoðun.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Hver er (hræddur við) Robert Parker?

Ansi margir.

Robert Parker er lögfræðingur að mennt og starfaði sem slíkur þar til vínástríðan gagntók hann. Í dag er hann er án efa virtasti og áhrifamesti vínrýnir heimsins, og sem slíkur hefur hann líklega meiri völd í vínheiminum en Alan Greenspan hefur í fjármálaheiminum.

Parker gefur út bækur, heldur uppi vefsíðu með stórum gagnabanka og hefur frá árinu 1978 gefið út tímaritið The Wine Advocate.

Í The Wine Advocate og á vef Parkers er hugsanlega að finna besta safn upplýsinga fyrir vínkaupendur, hvort sem það eru almennir neytendur, safnarar eða vínkaupmenn. Í blaðinu eru engar auglýsingar, engar myndir — aðeins þéttur texti þar sem fjöldi framleiðanda er tekinn fyrir frá ákveðnum svæðum, fjallað um vín þeirra og gefnar einkunnir. Parker þiggur hvorki sporslur frá framleiðendum né ókeypis sýnishorn, heldur kaupir sjálfur öll vín sem hann gagnrýnir.

Bomburnar

Parker hefur verið sakaður um að gefa svokölluðum "bombum" — vínum sem eru ávaxtarík og eikuð — of háar einkunnir, á kostnað vína sem leggja meira upp úr "terroir," eða staðbundnum einkennum sem meðal annars má rekja til jarðvegs og fleira. Parker virðist vera hallari undir vín sem eru djúsí og sexí frekar en þau sem eru einlæg og háttvís.

Vín sem falla undir síðarnefnda hópinn koma aðallega frá Ítalíu og Frakklandi. Umfjöllun Parkers um þessi tvö lönd er þó ekki verri en svo að árið 1993 veitti François Mitterand honum Chevalier dans l'Ordre National du Merite og 1999 gerði Jacques Chirac hann að Chevalier dans l'Ordre de la Legion d'Honneur.

Á þessu ári veitti svo Berlusconi Parker eina æðstu viðurkenningu Ítalíu með því að gera hann að Commendatore in Ordine al Merito della Repubblica Italiana og er hann fyrsti vínrýnirinn sem hlýtur þessa upphefð — ekki síst fyrir að upplýsa neytendur um gæði ítalskra vína.