sunnudagur, nóvember 06, 2005

Bloggið er flutt

Bloggið er flutt á www.vinogmatur.is

Þar er hægt að fá allar upplýsingar um vínin sem Vín & matur flytur inn.

kv.
Arnar

miðvikudagur, október 05, 2005

Cuvée Juveniles fær fimm glös

"... margbrotnasta og skemmtilegasta..."

Það hafa mörg vín frá vín og mat fengið fjögur glös í Gestgjafanum og ein fimm hafa hlotið titillinn "Vín mánaðarins". Cuvée Juveniles frá Torbreck er þó það fyrsta sem hlýtur fullt hús, fimm glös.
"Víngerðin Torbreck er ekki stór á mælikvarða áströlsku risafyrirtækjanna en
vínin frá henni vekja ávallt mikla athygli og eru jafnan á meðal rómuðustu vína Eyjaálfu. Þetta vín kemur frá Barossa og er samsett úr Miðjarðarhafsþrúgunum grenache, shiraz og mataro (sem nefnist mourvédre á frönsku). Það hefur meðalþéttan, kirsuberjarauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er satt best að segja ein sú margbrotnasta og skemmtilegasta sem ég hef fundið í háa herrans tíð. Hún er ung og berjarík og minnir fyrst ákaflega mikið á vín frá Chateaunef-du-Pape en þarna blandast saman í ævintýralega ilmsinfóníu kirsuberjasulta, blóm, minta, vanilla, varalitur, möndlur (sælgætið góða), reykur, kryddjurtir og griplím. Í munni er vínið sýruríkt og vel byggt og rís hátt upp áður en það fjarar hægt og rólega út. Það er enn ungt með mjúk tannín og mikla endingu. þarna eru glefsur af þroskuðum þrúgum, kirsuberjum, sveskju, dökku berja-kompott, vanillu, apríkósusultu og tóbaki. Minnir aðeins á pinot noir frá heitu landi. Hafið það með bragðmikilli villibráð, flottri nautasteik eða lambakjöti elduðu með miklu af rósmaríni og hvítlauk. Í reynslusölu vínbúðanna [þ.e. fæst í Heiðrúnu og Kringlunni eingöngu] 2270 [kostar reyndar 2.390 krónur]. Mjög góð kaup. Hiti: 17-19°C. Geymsla: Það er gaman að setja nokkrar flöskur í kjallarann af þessu víni og smakka næstu 6-8 árin. Er þó tilbúið núna."

Ætli ég eigi nóg af þessu ?

fimmtudagur, september 15, 2005

Dark, dense and chewy - Vinas de Gain frá Artadi

Oft þarf ég að taka dágóða stund til að finna réttu orðin til þess að lýsa víni. Þá dettur mér stundum í hug orð sem ég þekki úr öllum þeim bókum og tímaritum er fjalla um vín á ensku en get með engu móti þýtt með góðu móti.

Það er einhvern veginn ómögulegt að segja að mér þyki Vinas de Gain 2002 frá Artadi tyggilegt, tyggjanlegt eða tuggið heldur virkar betur að kalla það "chewy". "Chewy" vín er vín sem er dáldið holdugt, kjötmikið en ekki of þungt heldur gott að kjammsa dáldið á, það fyllir vel í góminn, er mátulega stamt og bragðending frekar löng.

M.ö.o. "tyggilegt".

Það er ekki beinlínis hægt að segja að Vinas de Gain frá Artadi hafi flogið úr hillum Vínbúðanna og mun það væntanlega ekki gera það héreftir nema þá beint til himna — þegar það lýkur árssamningi sínum á Reynslu. Vonandi verða þó einhverjir búnir að tryggja sér flösku eða þrjár áður en yfir lýkur því þetta er svo sannarlega gott vín. Steingrímur gaf því 18/20 stig í Mogganum og kallaði það m.a. "fágað og flott".

Þannig fannst mér vínið akkúrat vera þegar ég smakkaði það fyrst í Barcelona fyrir um ári síðan. Það smellpassaði líka með spænsku hráskinkunni og kjötinu er á eftir fylgdi. Þetta er talsvert höfugt vín, í nefi vottur af myntu, krækiber og áberandi sætuvottur sem Steingrímur kallar "kókoskonfekt" en Rakel "appelsínumarsípan". Ávöxtur er nokkuð þéttur; "mikill svartur ávöxtur í munni" segir Steingrímur. Það vottar af biturleika sem gerir það að verkum að vínið hentar betur með mat en eitt og sér — hver drekkur vín ein og sér hvort sem er.

Annað erum við Steingrímur sérstaklega sammála um, vínið er "alls ekki dæmigert fyrir héraðið". Rioja vín hafa stundum verið dáldið þreytt eftir langa eikarlegu finnst mér en hér er á ferðinni ungt og sjálfstætt vín. Það ber vott um frönsk áhrif en sömuleiðis finnst mér ég finna tengingu við Torbreck frá Ástralíu. Hugsanlega er það vegna þess að vínviðurinn er gamall eins og í Torbreck vínunum, sætan í nefinu ber vott um það.

sunnudagur, september 11, 2005

Er rósmarín í Tempier Cuvee Classique 2003 ?

Kermit Lynch er víninnflytjandi í Berkeley í Kalíforníu og einn þekktasti vínspekúlant Bandaríkjanna. Hann hefur skrifað bækur eins og Adventures on the Wine Route sem lýsir ævintýrum hans í vínlendum Frakklands. Hann er ástríðumaður í húð og hár, skrifar heillandi lýsingar og er mjög fyndinn og einlægur.

Kermit flytur inn Domaine Tempier til Bandaríkjanna. Hann er búinn að vera í hálgerðu fóstri hjá Tempier gegnum áratugina og endaði á því að kaupa sér hús ekki langt frá þar sem hann dvelur fleiri mánuði á ári.

Hann sendi nýverið frá sér skemmtilega lýsingu í fréttabréfi fyrirtækis síns á Bandol Cuveé Classique 2003 frá Tempier (2001 árg. í 49. sæti á Wine Spectator Top 100 árið 2004). Hann rifjaði upp pizzeríu í Provence sem hann sótti gjarnan og pantaði þá pizzu með sveppum og lambakjöt á eftir. Kjötið var grillað en áður en það var sett á grillið setti kokkurinn rósmarínstilka. Þegar stilkarnir voru farnir að brenna fjarlægði hann þá og setti á disk. Síðan steikti hann kjötið. Þegar kjötið var tilbúið setti hann það ofan á diskinn með rósmarínstilkunum og þá gaus upp þessi ómótstæðilega lykt sem minnti hann á ilminn úr víninu.

Muna að prófa þetta næst.

Tvö rauðvín frá Provence fá 19/20 í Mogganum

Steingrímur í góðu skapi:

"Það er ekki oft sem vín frá Provence sjást í ÁTVR, hvað þá toppvín. Það ber því að fagna er vín á borð við Domaine Tempier sést í hillunum. Þetta er framleiðandi á AOC-svæðinu Bandol við Miðjarðarhafsströnd Frakklands milli Marseille og Toulon sem talinn er vera einn fremsti - ef ekki sá fremsti á svæðinu. Raunar ganga sumir svo langt að segja að Tempier sé sá framleiðandi sem nota eigi sem viðmið þegar gæði Bandol-vína eru metin. Það er Peyraud-fjölskyldan sem hefur annast Domaine Tempier frá því á fjórða áratug síðustu aldar (er ungur maður úr Peyraud-fjölskyldunni giftist inn í Tempier-fjölskyduna) og hefur lagt mikinn metnað í að Bandol-vínin komist á kortið ekki bara sem gæðavín heldur vín sem hefur sýnt og sannað að það geti þroskast og batnað við langtímageymslu ekki síður en frægustu vín Bordeaux og Rónardalsins. Þrúgan sem myndar uppistöðuna í Tempier heitir Mourvédre og er hún einnig töluvert notuð í Rón og er m.a. að finna í flestum Chateauneuf-de-Pape blöndum.

Domaine Tempier 2003 er stórt vín, rúsínur, rauðir ávextir, rósir og áfengi (þetta er 14% bolti) í nefi í bland við hesthús og leður sem eru rétt farin að gægjast fram. Allt yfirbragð ungt, það er frábært núna en geymsla í 5-8 ár myndi verðlauna þá er hafa ánægju af þroskuðum vínum. 2.690 krónur. 19/20.

Annað suður-franskt rauðvín sem nú er nýbyrjað í reynslusölu er Mas de Gourgonnier 2003 sem er lífrænt ræktað vín frá framleiðslusvæðinu Les Baux de Provence. Ungt og öflugt, þungur, þurr og kröftugur dökkur berjaávöxtur, töluverð eik og þurrkaðar jurtir, jarðbundið og heitt. Í munni bjart og sýrumikið með kröftugum tannínum. Hefði gott af 1-2 ára geymslu en blómstrar vel og mýkist með mat. Þetta er einstaklega gott vín á hvaða mælikvarða sem er, en á því verði sem það býðst er það með bestu kaupum í vínbúðunum í dag. 1.590 krónur. 19/20.

fimmtudagur, september 08, 2005

Vin Santo - heilagt sætvín frá Toscana

Fá vín gera mér eins vel kleyft að upplifa angan og anda heils héraðs eins og Vin Santo gerir fyrir Toscana.

Ýmsar skýringar eru á nafngiftinni "heilagt vín" t.d. að vínið hafi verið búið til á degi allra heilagra í byrjun október, að vínið hafi verið notað sem messuvín, að vínið sé "heilagt" vegna þess að prestur læknaði sjúka með því að láta þá drekka vínið í plágunni 1348, eða að nafnið sé tilkomið vegna tóms miskilnings þegar að réttrúnaðarklerkurinn Bessarion kallaði það "xantos" árið 1439 sem á hans máli þýddi einfaldlega "gullið". Allavegana, nafnið hefur eitthvað með kirkjuna að gera — og því hugsanlega heilagt !

Liturinn er svo sannarlega oft gullinn, oft með brúnleitum eða appelsínugulum tilbrigðum. Þrúgurnar eru a.m.k. 70% Trebbiano og Malvasia og að hámarki 30% aðrar hvítvínsþrúgur (ein útgáfan leyfir einnig rauðvínsþrúguna Sangiovese). Eftir uppskeru eru þær látnar þorna á þurrum loftum, ýmist á mottum eða hengdar upp, í u.þ.b. 2-5 mánuði þar til þær verða að hálfgerðum rúsínum. Þá eru þær pressaðar og sætur safinn settur í viðartunnur (alls konar viður, oftast eik eða kastanía) til að gerjast og þroskast í a.m.k. 3-5 ár.

Gott Vin Santo getur verið þurrt og biturt (oxiderað) eins og sérrí, dísætt og allt þar á milli. Oft er hægt að lesa út úr áfengismagni vínsins hvers lags það er, því hærri prósenta þeim mun þurrara er vínið og svo öfugt. Getur það rokkað milli u.m.b. 10-18%, allt eftir aðferðum og smekk framleiðandans. Einnig er vínið sætara því lengur sem þrúgurnar voru þurrkaðar. Vin Santo er hreint vín, þ.e.a.s áfengi er aldrei bætt út í eins og gert er með sérrí eða portvín.

Vin Santo er dýrt vín. Það er aldrei beinlínis praktískt að búa það til því magnið er svo lítið (samanskroppnar þrúgur + mikil uppgufun við þroskun í tunnum) og krefst sérstaks umstangs. Flestir framleiðendur í Toscana búa það samt til og góður framleiðandi gerir það af miklu stolti og ástríðu.

Sem sætvín er lógískt að drekka Vin Santo eftir mat. Það er hefð að dýfa cantucci möndlukexi í vínið en betri vína er best notið einna og sér. Sum sætvín er einfaldlega of góð til að geyma þar til við enda mikils málsverðar, sérstaklega ef talsvert léttvín hefur verið drukkið á undan, — þau eru nægt tilefni út af fyrir sig en ég hef prófað að drekka slík vín á undan mat og virkar það bara vel en fer samt eftir öðrum mat og víni er á eftir fylgir, sætleiki þess slævir nefnilega bragðlaukana (gott að hreinsa með einhverju t.d. vatni og brauði).

Vín & matur flytur inn tvö Vin Santo frá Toscana sem bæði fást í Heiðrúnu og Kringlunni, annað frá Fontodi og hitt frá Castello di Querceto (byrjar 1. okt).

sunnudagur, september 04, 2005

Folaldakjöt, Sandrone og Þorvaldur Skúlason

Vorum á opnun í Listasafni Íslands í gær. Verk Þorvaldar Skúlasonar stóðu upp úr. Mamma sagði mér þegar hann kom á Matstofu Austurbæjar til afa, fátækur einfari og hálf ræfilslegur með lúinn hatt. Kjarval borðaði þar líka, aðallega skyr, og gerði upp reikninginn með málverki. Amma og afi vildu þó bara kurteislega fá lítið málverk enn ekki það stóra sem hann bauð þeim!!!

Við hittum Þorra og Sigrúnu á opnuninni, þau voru sammála okkur um hið mikla ágæti verka Þorvaldar. Þau lofuðu líka folaldakjöt sem þau voru nýbúin að kaupa í Hagkaup og sögðu mér hversu sýran og biturleiki hins magra og mjúka folaldakjöts smellpassaði með ítölskum rauðvínum, sérstaklega frá Toscana og Piemonte, en ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir í fljótu bragði að hafa borðað folaldakjöt öðruvísi en í bjúgum fyrir utan grafið að hætti Ostabúðarinnar Skólavörðustíg. Ég skundaði því í Hagkaup og keypti síðustu fillet-sneiðina og svolítinn innanlærisvöðva.

Í kvöld skellti ég þessu á grillið og drukkum við með Barbera d'Alba 2002 frá Luciano Sandrone, mikið ítalskara verður það ekki. 2002 árgangurinn í Piemonte var slæmur og framleiddi Sandrone nánast engin Barolo vín það árið. 2002 Barbera d'Alba frá Sandrone fékk t.d. einungis 83 stig í Wine Spectator en þá lágu einkunn verðskuldar vínið þó alls ekki. Meira að segja sum skjaldbökuvínin frá Ástralíu (fjöldaframleidd vörumerkjavín með dýri á miðanum) fá hærri einkunn. Það sýnir reyndar hversu einkunnir WS eru oft á skjön þegar ólíkir einstaklingar gagnrýna ólík landssvæði.

Barbera d'Alba frá Sandrone er heillandi vín með mikla og opna angan af sætum berjum (sólber segir Rakel) og vanillu úr eikinni, kjöti og jörð. Það er hellingur af "terroir" í þessu víni. Rakel fann líka appelsínu, eða frekar granatepli (sammála). Vínið er mjög jarðbundið og einhvern veginn einlægara en í sumum "betri" árgöngum. Það er helst að veikleiki árgangsins komi í ljós í munninum því vínið er einstaklega sýrumikið, jafnvel fyrir Barbera sem er annars mjög sýrurík þrúga. Tannín eru mild og vínið ákjósanlegt með feitum mat þar sem sýran heggur á fituna og lyftir honum upp.